Fullgilding Árósasamningsins

Föstudaginn 15. apríl 2011, kl. 14:02:50 (0)


139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[14:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki mótað mér tillögur um það enn þá, þannig að það sé sagt eins og það er. Þess vegna hef ég uppi ákveðin varnaðarorð við 1. umr. málsins, þetta eru atriði sem ég vil skoða í meðförum nefndarinnar, m.a. hvernig nágrannaþjóðirnar sem hafa uppfyllt ákvæði Árósasamkomulagsins hafa farið að í þessum efnum, hvernig þær hafa innleitt efni hans í rétt sinn með öðrum hætti en hér er lagt til. Ég vil kynna mér það áður en ég tek afstöðu til þess hvaða tillögur ég ætla að leggja fram. En varfærni mín stafar af því að ég hef ákveðnar áhyggjur af því að verið sé að stíga skref sem geti hugsanlega leitt til fjölgunar kærumála og meira flækjustigs í sambandi við undirbúning ákvarðana. Ég leggst ekki gegn því að ákvarðanir á þessu sviði eins og öðru séu teknar að vandlega yfirveguðu ráði, alls ekki, en hins vegar þekkjum við það hér og annars staðar að í sumum tilvikum er gengið of langt í þeim efnum. Á sama hátt og hv. þingmaður talar um að ruðningsaðferð sé beitt við afgreiðslu framkvæmda, sem ég styð ekki, að það sé ruðst og troðist án þess að gætt sé að eðlilegum málsmeðferðarreglum, vil ég heldur ekki hafa málsmeðferðarreglurnar þannig að hægt sé að koma fyrir klossum á færibandinu á hverjum einasta pósti eins og stundum virðist vera í praxís.