Fullgilding Árósasamningsins

Föstudaginn 15. apríl 2011, kl. 14:53:21 (0)


139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[14:53]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið fullkomlega undir orð hæstv. umhverfisráðherra þegar hún segir að við eigum að umgangast náttúruna á grundvelli þekkingar, rannsókna — ég vil bæta við: verksvits — og reynslu. En við verðum að gæta þess að vera ekki kaþólskari en páfinn. Þar eru hætturnar sem ég tel að liggi í þeim málum sem hér eru til afgreiðslu. Nóg hefur þótt samt í þeim efnum.

Það sem hæstv. ráðherra sagði, að við þrífumst ekki án náttúrunnar, er auðvitað alveg rétt. En við erum Íslendingar vegna þess að við viljum búa í þessari náttúru. Þá þurfum við auðvitað að sýna henni tilhlýðilega og fulla virðingu eins og fólkinu í landinu, en ekki verða kaþólskari en páfinn, ekki gera þetta of flókið, ekki búa til framleiðslu og atvinnu á vitlausum stöðum heldur reyna að gera þetta skynsamlega.

Langvían verpir þrisvar á sumri þótt eggin séu tekin. Lundinn gerir það ekki, hann verpir bara einu sinni. Við getum lært af svona hlutum til að búa til kerfi sem hentar okkur þannig að það skili árangri og sé markvisst, ekki kerfishlaðið.

Hæstv. umhverfisráðherra vék að nokkrum þáttum sem ég vildi gjarnan svara en mun svara í seinni lotu, sem ég hef væntanlega.