Fullgilding Árósasamningsins

Föstudaginn 15. apríl 2011, kl. 14:56:49 (0)


139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

fullgilding Árósasamningsins.

708. mál
[14:56]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. umhverfisráðherra spurði fyrr hvort það væri áhyggjuefni ef við gengjum einu sinni lengra en aðrar Norðurlandaþjóðir í regluverkinu eða afstöðu eða hverju sem er. Við höfum ekki góða reynslu af því að sækja í þessar þjóðir, að mörgu leyti höfum við slæma reynslu. Um árabil sóttum við fyrirmyndir í skólakerfinu til Svíþjóðar. Það fór allt úr böndum þangað til við slípuðum það að íslenskum raunveruleika.

Nærtækasta dæmið er að hæstv. núverandi ríkisstjórn byggir á norrænu velferðarkerfi og það er allt í steik, allt í tómri tjöru meira og minna svo að það er ekki góð viðmiðun, virðulegi forseti. Það er því miður svo þó að margt sé gott í norræna samfélaginu að kerfið er svo fast og njörvað (Gripið fram í: Kerfishlaðið.) — já, já, ég þori ekki að nota það orð til þess að styggja ekki hv. nýliðana. En það er að sumu leyti bara kommúnuskúffukerfi með fullt af fólki sem verður leitt á sjálfu sér af því að það fær ekki að blómstra. Það fáum við yfirleitt í íslensku samfélagi af því að vorið er sterkt og birtan er mikið afl. (MÁ: Sérstaklega síðustu árin …) — já, ég tala ekki bara um síðustu tvö árin (Gripið fram í.) þannig að það er ekki allt úti á klaka. (MÁ: Nei, nei.)

Það er svo margt nýtt sem er óvinur norræna kerfisins. Það er ótrúleg steypa og þröskuldar fyrir framgangi mála í (Forseti hringir.) Noregi og Svíþjóð. Við skulum ekki fara út í það.

Bara eitt, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Sumir vilja Brussel-forsjárhyggjuna. Við skulum geta þess að (Forseti hringir.) það er engin hindrun að koma að málum samkvæmt þessum frumvörpum, (Forseti hringir.) en það er endalaus hindrun á því að taka ákvarðanir. (Forseti hringir.) (MÁ: Bammbaramm. Þetta er fallegt lag.) [Hlátur í þingsal.]