Rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna

Föstudaginn 15. apríl 2011, kl. 15:47:36 (0)


139. löggjafarþing — 113. fundur,  15. apr. 2011.

rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

548. mál
[15:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því mjög að þetta frumvarp sé komið á dagskrá og búið að mæla fyrir því. Það er mjög mikilvægt að við hefjum rannsókn á aðdraganda og orsökum falls sparisjóðanna. Sparisjóðirnir eru og hafa verið einhverjar þær mikilvægustu fjármálastofnanir sem landsbyggðin hefur átt í gegnum tíðina, og svo sem ekki bara landsbyggðin heldur höfuðborgarsvæðið líka. Meðan hinir svokölluðu stóru, voldugu bankar neituðu að lána fyrirtækjum og einstaklingum víða um land voru það sparisjóðirnir sem sinntu því hlutverki sem hornsteinn í héraði.

Síðan þekkjum við söguna. Einhvers konar hugarfarsbreyting varð sem náði einnig inn í þessar stofnanir. Ég velti fyrir mér varðandi það frumvarp sem hér er lagt fram hvort það taki á einum hlut sem mér finnst mjög mikilvægt að sé skoðaður. Ég hvet til þess að allsherjarnefnd sem fær frumvarpið væntanlega til umfjöllunar skoði sérstaklega hvort stofnfjárhafar hafi verið blekktir til að taka þátt í stofnfjáraukningu þegar holskeflan reið yfir íslenskt samfélag og farið var að bjóða stofnfé og hlutafé á sérstökum kjörum, menn héldu að þeir þyrftu jafnvel aldrei að borga það eða að þeir fengju arðinn mjög fljótt.

Það er eitthvað í þessu sem manni sýnist að ekki hafi verið rétt. Voru upplýsingar rétt veittar þegar sótt var í vasa stofnfjárhafa og sveitarfélaga? Það þarf að rannsaka og ég vil gjarnan að nefndin taki það til skoðunar að bæta því inn í markmið rannsóknarinnar eða í það minnsta að það verði tekið með í reikninginn.

Það er einnig mikilvægt af því að við erum að ræða þessar rannsóknir allar að við reynum að koma frumvarpi um rannsóknarnefndir í gegn sem fyrst. Þó að ég sé mjög mikill andstæðingur þess að tíma og fjármunum sé eytt í að rannsaka allt sem fólki dettur í hug að rannsaka þurfum við samt að fá ákveðna hluti á hreint og þetta er eitt af þeim, alveg klárlega. Við þurfum að sjálfsögðu að vanda okkur og hafa alla umgjörð í lagi. Ég er mjög hlynntur því að það nái fram að ganga og óska eftir því að tekið verði tillit til þess sem ég nefndi áðan.

Ég get ekki farið úr þessum stól án þess að nefna að það er afar mikilvægt að nú þegar verði hafin rannsókn á því sem við höfum mörg talað um, þ.e. hvernig stjórnvöld hafa haldið á hinu svokallaða Icesave-máli og að það verði rannsakað alveg frá upphafi til enda.