Landsdómur

Fimmtudaginn 05. maí 2011, kl. 11:36:35 (0)


139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[11:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1363 við 769. mál þingsins, frumvarp til laga um breytingu á lögum um landsdóm nr. 3/1963, með síðari breytingum.

(Forseti (ÞBack): Forseti biður um hljóð í salnum.)

Álitið er, eins og fram hefur komið, frá meiri hluta allsherjarnefndar. Þar kemur fram að nefndin hefur fjallað um málið og ég leyfi mér, frú forseti, að vitna beint til álitsins:

„Með frumvarpinu er lagt til að við 2. gr. laga um landsdóm bætist ný málsgrein sem feli í sér að þeir dómarar og varamenn þeirra sem eiga sæti í landsdómi þegar Alþingi hefur samþykkt málshöfðun gegn ráðherra skuli ljúka meðferð þess máls þrátt fyrir að kjörtímabil þeirra sé á enda.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að með því fyrirkomulagi sem frumvarpið felur í sér verði ekki rof á umboði dómenda landsdóms meðan mál er þar til meðferðar og það sé í samræmi við meginreglur réttarfars um milliliðalausa málsmeðferð. Meiri hlutinn telur frumvarpið tryggja að málsmeðferð fyrir landsdómi verði í samræmi við meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð.

Verði frumvarpið að lögum munu þeir dómarar sem kjörnir voru 11. maí 2005 til sex ára og varamenn þeirra ljúka meðferð þess máls sem dómurinn hefur til umfjöllunar.“

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir þetta nefndarálit skrifa, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar, Valgerður Bjarnadóttir, Eygló Harðardóttir, Þráinn Bertelsson, Mörður Árnason og Þór Saari.