Landsdómur

Fimmtudaginn 05. maí 2011, kl. 12:01:44 (0)


139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[12:01]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil óska hv. þm. Birgi Ármannssyni til hamingju með að hann hefur flutt ræðu sem ég hef ekki heyrt áður jafnfrækilega flutta. Lopinn var teygður þannig að ég held að það nálgist met í ræðustóli á Alþingi hvað honum tókst að endurtaka sömu setninguna oft í ræðunni og það verður gaman að bregða á það mælistiku þegar ræðan verður komin í ritað form hvað hann hefur lýst oft óánægju sinni með að hafa ekki fengið að tala við sérfræðinga á sviði réttarfars á vegum allsherjarnefndar.

Allsherjarnefnd ber ekki frekar en nokkurri annarri nefnd í þinginu nein lagaleg skylda til að leita ráða, samráðs eða upplýsinga um neitt. Það gera nefndirnar hins vegar yfirleitt þegar þeim hentar. Það er heldur ekkert sem bannar einstökum þingmönnum, t.d. hv. þm. Birgi Ármannssyni, að leita eftir slíku áliti, ræða við menn og flytja síðan þá ræðu í stólnum. En það kaus hv. þingmaður ekki að gera heldur tók hann allan þann tíma sem hann gat í það að segja þessa einu setningu eins oft og hann gat.

Kjarni málsins er samt ekki sá hverja allsherjarnefnd talaði við og hverja ekki heldur er hann: Á að gera þetta eða á ekki að gera þetta? Af því að hv. þingmaður hóf ræðu sína þó með því að tala um kröfur um réttláta málsmeðferð hlýtur spurningin að vera sú til hans hvort það stenst ekki kröfur um réttláta málsmeðferð að sömu dómarar starfi áfram sem við málinu tóku. Er það skipan í dómsmáli sem ekki stenst kröfur um réttláta málsmeðferð? Um það snýst þetta mál og ekkert annað.