Landsdómur

Fimmtudaginn 05. maí 2011, kl. 12:16:24 (0)


139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[12:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að geta þess sem mér láðist í framsögu minni áðan að hv. þm. Atli Gíslason er áheyrnarfulltrúi í hv. allsherjarnefnd og er samþykkur áliti þessu. Ég bið forláts á því að þetta hafi fallið niður í prentun á þingskjalinu og mun tryggja að það verði leiðrétt í framhaldinu.

Ég vil gera athugasemd við málflutning hv. þingmanns því að jafnvel þótt hann segi að hér sé um að ræða skárri kost og annað væri síðri kostur gefur hann til kynna að hér sé um að ræða eins konar bráðabirgðaákvæði, að eingöngu sé verið að taka til eins máls, og það þing sem nú situr sé í reynd að handvelja dómendur til að fjalla um umdeilda ákvörðun Alþingis um málshöfðun gegn fyrrverandi hæstv. forsætisráðherrar, Geir H. Haarde. Þetta er rangt og ég vil leyfa mér að mótmæla þessari túlkun. Hið rétta er að hér er um að ræða almenna breytingu á lögum um landsdóm sem taka mun til allra landsdóma og þeirra mála sem þangað kunna að rata með svipuðum hætti svo lengi sem lögin munu standa óbreytt, verði frumvarpið að lögum.

Í öðru lagi eru fyrir þessu skýr fordæmi eins og vitnað hefur verið ítrekað til.

Í þriðja lagi eru þeir átta dómendur sem skipa landsdóm valdir af Alþingi því sem sat 2005, í maí hinn 11. þess mánaðar, sem sagt fyrir sex árum, og reyndar voru þeir valdir án atkvæðagreiðslu í þinginu. Hið rétta er og ályktun af þessum orðum mínum er, frú forseti, að Alþingi það sem nú situr kýs einmitt að blanda sér ekki í það val sem fór fram 11. maí 2005 og fylgja fordæmum og réttarvenjum í því dæmi og það er gott. Það er betri kostur og allt annað væri vondur kostur.