Landsdómur

Fimmtudaginn 05. maí 2011, kl. 12:43:00 (0)


139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[12:43]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér er engin sérstök ánægja af því að sjá hér grátbólgna og társtokkna þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma upp og hafa áður snyrt sig í speglinum til að slá pólitískar keilur út af þessu máli sem á ekki að vera neitt annað en venjulegt afgreiðslumál þingsins til að bæta úr ágöllum sem í ljós hafa komið. En það er auðvitað lærdómsríkt að horfa á þá og einn eftir hér til vinstri handar, hin mesta grátkona af öllum grátkonum Sjálfstæðisflokksins eins og fram hefur komið þegar hann vill það viðhafa (Gripið fram í: Hvað á þetta að þýða?) en vill brjóta lög og sveigja til reglur þegar hann vill það viðhafa, hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sem á eftir að gráta (Gripið fram í: Er þetta andsvar?) þegar þeir Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson, hv. þingmenn, hafa grátið. Það sem athyglisverðast var í ræðu … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Ég vil biðja hv. þingmann um að gæta orða sinna.)

Já, ég skal gera það, forseti, og kanna um leið fordæmi í þingtíðindum, t.d. í máli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, um það sem ég nefndi hér sem var fullkomlega saklaust.

Það sem var athyglisverðast í ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar var sú viðurkenning og sú frásögn af fundinum í allsherjarnefnd í gær að ekki einungis kallaði hann eftir því að rætt væri við sérfræðinga um réttarfar, sem er auðvitað eðlileg krafa og hefði verið eðlilegt að verða við henni ef aðstæður hefðu verið með þeim hætti, heldur vildi hann í því máli sem hv. þm. Birgir Ármannsson tók réttilega fram eða sagði um réttilega að væri viðkvæmt sem þetta mál er auðvitað af því að það er dómsmál í gangi eins og hann rakti, og þá vildi hann gera það enn þá viðkvæmara, kreista fram meiri grát, meiri viðbrögð með því að kalla bæði saksóknarann í málinu og verjandann í málinu á fund allsherjarnefndar til að þeir gæfu þar einhverjar yfirlýsingar sem hann gæti síðan flutt hér í málflutningi. Heyr á endemi! (Forseti hringir.) Heyr á endemi, forseti.