Landsdómur

Fimmtudaginn 05. maí 2011, kl. 12:49:43 (0)


139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[12:49]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það sérstaklega fram vegna orða hv. þm. Marðar Árnasonar að þegar beiðnin um saksóknara Alþingis og verjanda sakborningsins Geirs H. Haardes kom fram frá mér og hv. þm. Birgi Ármannssyni var sérstaklega tekið fram að beiðnin væri ekki til komin vegna þess að við vildum efna til einhvers málflutnings um efni ákæranna í allsherjarnefnd, málflutnings sem ætti heima fyrir landsdómi. Það var ekki tilgangurinn. Við töldum hins vegar eðlilegt í ljósi þess að því var marglýst yfir í þessum ræðustól þegar ákærutillögurnar komu fram að ekki þyrfti að breyta landsdómslögum. Síðan er það gert, lögð eru fram tvö frumvörp um breytingu á landsdómslögunum eftir að ákærurnar höfðu verið samþykktar á þingi. Í ljósi þess var eðlilegt að báðir aðilar málsins fengju þó ekki væri nema að segja munnlegt álit sitt á því frumvarpi sem við erum að ræða.

Af hverju var það ekki gert? Getur hv. þingmaður útskýrt fyrir mér hvaða hætta stafaði af því að fá einn lagaprófessor og sækjanda málsins og verjanda til að segja munnlegt álit sitt á þessu máli, gefa þeim kannski 30–60 mínútur til að gera það? Getur hv. þingmaður upplýst mig um hvers vegna það var ekki gert? (Gripið fram í.) Telur hv. þingmaður að það hafi ekki verið tilefni fyrir nefndina að eiga orðastað við saksóknara Alþingis sem hefur ítrekað og opinberlega verið að krefjast þess að ráðist yrði í breytingar á landsdómslögunum? Það eitt gefur tilefni til þess (Forseti hringir.) að þingnefndin ræði við saksóknara Alþingis. (Forseti hringir.) Það eitt og það að saksóknari Alþingis kom að málum gagnvart saksóknarnefnd á frumstigum málsins.