Greiðsluþjónusta

Fimmtudaginn 05. maí 2011, kl. 20:36:30 (0)


139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

greiðsluþjónusta.

673. mál
[20:36]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um greiðsluþjónustu á þskj. 1190. Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt ákvæði Evróputilskipunar nr. 64/2007 sem ætlað er að skapa heildstætt samræmt og nútímalegt regluverk um greiðsluþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Með samþykkt frumvarpsins mun öðlast gildi fyrsti heildstæði lagabálkurinn um greiðsluþjónustu en hugtakið greiðsluþjónusta nær m.a. yfir notkun greiðslukorta, færsluhirðingu, greiðslur sem framkvæmdar eru í heimabönkum og svonefndar peningasendingar. Í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar er með frumvarpinu lagt til að greiðsluþjónustuveitendum verði einum heimilt að veita greiðsluþjónustu hér á landi enda hafa þeir tilskilin leyfi stjórnvalda hér á landi eða í öðru aðildarríki.

Hugtakið greiðsluþjónustuveitandi er skilgreint í 7. gr. frumvarpsins og falla m.a. undir það eftirtaldir aðilar: Fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til móttöku innlána og annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi og veitingar útlána fyrir eigin reikning, í annan stað rafeyrisfyrirtæki, í þriðja lagi póstrekendur með rekstrarleyfi samkvæmt lögum um póstþjónustu og í fjórða lagi greiðslustofnanir, en greiðslustofnanir eru ný starfsleyfisskyld tegund þjónustuveitenda á sviði fjármálaþjónustu sem nánar er skilgreind í II. kafla frumvarpsins.

Gert er ráð fyrir að greiðslustofnanir sinni takmarkaðri og sérhæfðari starfsemi en fjármálafyrirtæki sinna samkvæmt núgildandi lögum. Tilskipun 64/2007/EB er ætlað að efla samkeppni í greiðsluþjónustu á sama tíma og leikreglur um skilyrði til veitinga slíkrar þjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins eru gerðar skýrari. Eitt af markmiðum tilskipunarinnar er að efla réttarstöðu neytenda.

Með ákvæðum frumvarpsins er gert ráð fyrir að ítarleg lagaákvæði verði sett um upplýsingagjöf og gagnsæi við veitingu greiðsluþjónustu. Þannig verði notendum greiðsluþjónustu tryggðar ákveðnar lágmarksupplýsingar um framkvæmd gjaldtöku, réttarstöðu aðila ef framkvæmd greiðslu misferst o.fl.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sett verði ítarleg efnisákvæði um réttindi og skyldur aðila, þ.e. annars vegar greiðsluþjónustuveitenda og hins vegar notenda greiðsluþjónustu. Þeirra á meðal eru ákvæði um framkvæmd greiðslu- og framkvæmdatíma, meðferð greiðslumiðils og nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að tryggja persónubundna öryggisþætti greiðslumiðils svo og um ábyrgð aðila þegar óheimilaðar og ranglega framkvæmdar greiðslur eru annars vegar.

Ákvæði 6. gr. frumvarpsins, um þátttöku í greiðslukerfum, felur í sér nýmæli að því leyti að ekki hafa áður verið sett í almenn lög ákvæði um greiðslukerfi önnur en þau sem lög nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum, gilda um. Það eru kerfislega mikilvæg grundvallarkerfi, einkum stórgreiðslukerfi Seðlabankans.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitinu verði falið eftirlit með framkvæmd laga um greiðsluþjónustu í samræmi við önnur lög á sviði fjármálaréttar. Fjármálaeftirlitið mun jafnframt veita greiðslustofnunum, samkvæmt II. kafla frumvarpsins, starfsleyfi og hafa eftirlit með starfsemi þeirra. Í ljósi þess að um flókið og sérhæft svið er að ræða verður að gera ráð fyrir fjölgun stöðugilda hjá stofnuninni með tilheyrandi kostnaðaraukningu verði henni falið aukið hlutverk samkvæmt frumvarpi þessu.

Hins vegar er lagt til að Seðlabanka Íslands verði sérstaklega falið eftirlit með áðurgreindri 6. gr. um þátttöku í greiðslukerfum. Í 4. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabankann, er honum falið almennt hlutverk að því er varðar greiðslukerfi og hefur Seðlabankinn á grundvelli þessarar 4. gr. sett reglur um greiðslukerfi.

Loks ber þess að geta að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að notendur greiðsluþjónustu geti skotið ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Í ljósi þeirra helstu aðila sem samkvæmt frumvarpinu munu teljast til greiðsluþjónustuveitenda og eiga nú þegar aðild að þessari úrskurðarnefnd þykir hvorki réttlætanlegt að setja á fót sérstaka úrskurðarnefnd um greiðsluþjónustu né skynsamlegt út frá kostnaðarsjónarmiðum. Æskilegt þykir og raunar gerir Evróputilskipunin um greiðsluþjónustu beinlínis ráð fyrir að slíkum ágreiningi sé hins vegar unnt að skjóta til sjálfstæðrar úrskurðarnefndar utan dómstóla.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til viðskiptanefndar.