Bókhald

Fimmtudaginn 05. maí 2011, kl. 20:47:11 (0)


139. löggjafarþing — 119. fundur,  5. maí 2011.

bókhald.

700. mál
[20:47]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um bókhald á þskj. 1219. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á 43. gr. bókhaldslaga um viðurkenningu bókara til að fella niður þá kvöð að ráðherra hlutist til um að haldin séu námskeið fyrir þá sem óska eftir að kalla sig viðurkenndan bókara. Ráðherra skal einungis hlutast til um að próf séu haldin í þeim tilgangi.

Með þessari breytingu er lögð til sú kerfisbreyting að fleiri menntastofnunum verði gefið tækifæri til að bjóða upp á slík námskeið. Breytingin skapar möguleika fyrir þá sem unnið hafa sem bókarar í fleiri ár til að ganga beint að prófborði til að öðlast slíka viðurkenningu ef þeir telja sig ekki þurfa námskeiðs við heldur treysta sér til að þreyta prófið án undanfarandi námskeiðs.

Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins munu þeir sem óska eftir því að fá viðurkenningu sem bókari þreyta til þess sérstakt próf en kostnaður vegna þessara prófa er greiddur af þeim sem prófin taka með próftökugjaldi. Er því ekki gert ráð fyrir að frumvarp þetta hafi í för með sér viðbótarútgjöld fyrir ríkissjóð.

Þessi breyting á lögum um bókhald var lögð fram með öðru stærra frumvarpi um breytingar á lögum um bókhald og breytingar á lögum um ársreikninga á 138. löggjafarþingi. Ekki komu fram neinar athugasemdir frá umsagnaraðilum um þessa grein. Það frumvarp hlaut hins vegar ekki afgreiðslu og eru aðrir efnisþættir þess til frekari athugunar í ráðuneytinu. Var því farin sú leið að flytja einfalt breytingarfrumvarp um þessa óumdeildu þætti.

Virðulegi forseti. Ég mælist til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.