Gengi krónunnar

Þriðjudaginn 10. maí 2011, kl. 14:11:07 (0)


139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

gengi krónunnar.

[14:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra lauk svari sínu áðan á því að benda á mikilvægi þess að gengi krónunnar styrktist samhliða því að áhrif kjarasamninganna færu að koma í ljós. Í morgun lýsti hins vegar Seðlabankinn eða fulltrúi hans því yfir að gengi krónunnar þyrfti að veikjast áfram frá því sem nú er og er þó langt síðan það hefur verið jafnveikt og núna. Það er í sjálfu sér dálítið sérkennilegt að seðlabanki skuli tala með þessum hætti og ekki í fyrsta skipti sem Seðlabanki Íslands kemur á óvart í yfirlýsingagleði sinni. Ég ætti t.d. bágt með að sjá fyrir mér fulltrúa seðlabanka Bandaríkjanna tala um mikilvægi þess að bandaríkjadollari veiktist.

En hvað sem því líður spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig kemur þetta heim og saman við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem hefur alloft hreykt sér af því að gengið væri farið að styrkjast, þ.e. áður en sú þróun snerist við? Gengið hefur veikst og Seðlabankinn segir að það þurfi að veikjast áfram til þess að það verði ódýrara fyrir Seðlabankann að byggja upp gjaldeyrisvarasjóðinn. Hvernig kemur þetta heim og saman við það sem ríkisstjórnin hefur haldið fram? Vegna þess að yfirlýsingar, sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra, um að hér væri allt að þróast á betri veg hafa falið það í sér að stoðir krónunnar væru að styrkjast enda væri útflutningur það miklu meiri en innflutningur og það væri að takast að beisla ríkisskuldirnar og af því leiddi þá að grunnurinn undir krónuna væri að styrkjast. Nú kemur Seðlabanki þessarar ríkisstjórnar fram og heldur fram þveröfugri skoðun. Hvernig kemur þetta heim og saman?