Gengi krónunnar

Þriðjudaginn 10. maí 2011, kl. 14:16:16 (0)


139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

gengi krónunnar.

[14:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er fallegur vordagur úti og stóri álmurinn við fjármálaráðuneytið er að laufgast þannig að ég er að hugsa um að bjóða hv. þingmanni í gönguferð með mér þangað upp eftir og sýna honum að vorið er að koma og farið er að birta yfir hlutunum. Ég hugsa að ég velji þann kost að ræða sjálfur við Seðlabankann um gjaldeyris- og peningamál og fá botn í hvaða staða er uppi af þeirra hálfu eða hvert mat þeirra er á hlutunum fremur en að treysta á milligöngu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um það, í ljósi hins sérstaka kærleikssambands á milli hv. þingmanns og Seðlabankans því að ég hef séð ummæli hans um þá stofnun. Ekki meira um það.

Ég held að engar sérstakar ástæður séu til þess að ætla að þróunin almennt geti ekki orðið jákvæð á komandi mánuðum og missirum. Ég trúi því að kjarasamningarnir muni hafa jákvæð og örvandi efnahagsleg áhrif án þess að raska því jafnvægi og þeim stöðugleika sem við þurfum að (Forseti hringir.) sjálfsögðu að tryggja áfram og að sókn þjóðarinnar til betri lífskjara sé sannarlega hafin.