Verndar- og orkunýtingaráætlun

Þriðjudaginn 10. maí 2011, kl. 14:46:36 (0)


139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

77. mál
[14:46]
Horfa

Frsm. iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til laga um verndar- og orkunýtingaráætlun sem flutt er af, auk þeim sem hér stendur, formanni iðnaðarnefndar, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Sigmundi Erni Rúnarssyni, Gunnari Braga Sveinssyni, með fyrirvara, Magnúsi Orra Schram, Margréti Tryggvadóttur, Tryggva Þór Herbertssyni, með fyrirvara, og Þráni Bertelssyni. Einn nefndarmanna var fjarverandi þegar málið var tekið út. Þetta er sem sagt samdóma álit nefndarinnar.

Nefndin tók málið til frekari umfjöllunar eftir 2. umr. Nefndin hefur fengið á sinn fund Guðjón Bragason og Karl Björnsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Kristján Skarphéðinsson og Ingva Má Pálsson frá iðnaðarráðuneytinu.

Nefndinni barst viðbótarumsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem ítrekuð er fyrri athugasemd er varðar 7. gr. frumvarpsins um að verndar- og nýtingaráætlun sé bindandi við gerð skipulagsáætlana og að sveitarstjórnum verði gert skylt að samræma skipulagsáætlanir sínar við rammaáætlun innan tiltekins árafjölda. Sérstaklega andmælir sambandið því að sveitarstjórnum verði gert skylt að setja virkjunarkosti í nýtingarflokki inn á aðalskipulag sveitarfélagsins þótt ekkert liggi fyrir um að ráðist verði í viðkomandi virkjunarkost í fyrirsjáanlegri framtíð. Að því leyti telur sambandið að frumvarpið brjóti gegn sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga. Í umsögninni gerir sambandið einnig athugasemdir við bindandi áhrif þess að virkjunarkostur er flokkaður í verndarflokk en þau áhrif eru þó ekki talin vera nærri jafníþyngjandi fyrir sveitarfélögin.

Nefndin hefur fjallað um málið og leggur til þær breytingar á frumvarpinu að séu fyrir því gildar ástæður geti sveitarstjórn óskað eftir heimild Skipulagsstofnunar til að fresta ákvörðun um landnotkun að hámarki til þriggja ára í viðbót. Nefndin telur að þessi breyting hafi ekki víðtækari áhrif gagnvart öðrum ákvæðum frumvarpsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu á þskj. 1356. Eins og áður sagði, virðulegi forseti, er þetta tekið út úr nefndinni með samhljóða atkvæðum allra iðnaðarnefndarmanna og ég vil enn á ný nota tækifærið og þakka iðnaðarnefndarmönnum fyrir góða og farsæla samvinnu um þetta mál í nefndinni sem lýkur með því að þetta framhaldsnefndarálit er samþykkt af öllum þingmönnum á umræddum fundi og í framhaldi af 2. umr. þar sem þetta mál er orðið að samkomulag milli allra flokka á Alþingi. Fyrir það þakka ég nefndarmönnum alveg sérstaklega.