Verndar- og orkunýtingaráætlun

Þriðjudaginn 10. maí 2011, kl. 14:53:59 (0)


139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

77. mál
[14:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ætla í sjálfu sér ekkert að deila við hann um þessa túlkun. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að þetta er metið mikilvægt og nauðsynlegt til að rammaáætlunin og umsýsla hennar nái fram að ganga eins og hún er hugsuð.

Ég vildi hins vegar koma því á framfæri að ég hef fyrirvara á og efasemdir um að gott sé að fara þann veg að taka þetta skipulagsvald frá sveitarfélögunum. Ég er hins vegar algjörlega sammála túlkun hv. þingmanns um að mat þeirra sem hafa teiknað þetta upp allt saman er að þetta sé nauðsynlegt. Fyrir því hafa verið færð mjög gild rök og ég ætla ekki að standa hér og hafna þeim. Það er alveg augljóst að ef áætlunin á að ná fram að ganga eins og hún er hugsuð þarf verkfæri sem þessi.