Verndar- og orkunýtingaráætlun

Þriðjudaginn 10. maí 2011, kl. 14:55:06 (0)


139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

77. mál
[14:55]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég fagna vinnu iðnaðarnefndar við þetta mál og tel að hún hafi á milli 2. og 3. umr. bætt um betur ef eitthvað er. Ég ætla ekki að ræða mikið meira um það verk nefndarinnar en tek undir með hv. þm. Magnúsi Orra Schram í andsvari áðan um að þetta er forsenda þess að hægt sé að taka þessa nýskipan upp. Raunar heyrðist mér hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson taka undir það að sínu leyti þótt honum þætti illt að skerða skipulagsvald sveitarfélaga. Ég skil það ágætlega og virði það fullkomlega að sveitarfélögin vilja halda þeim völdum sem þau þó hafa gagnvart ríkinu. Það háttar hins vegar svo til hér að svona verður þetta að vera ef það á að vera einhver botn í þessu máli. Það verður auðvitað að taka fram um leið að sveitarfélögin eiga ýmiss konar aðkomu að ferlinu öllu því að við erum að samþykkja lög um mál sem búa til ákveðið ferli eða ákveðinn farveg.

Í frumvarpinu var, eins og rakið hefur verið, gert ráð fyrir að sveitarfélögin gætu neitað í 10 ár að taka mark á, ef maður orðar það hryssingslega, ákvörðun Alþingis um virkjunarkosti eða verndarsvæði og iðnaðarnefnd leggur nú til við Alþingi að sá tími verði aukinn um þrjú ár. Ég tel að þetta sé ágætt fyrirkomulag, hvort sem það eru 10 eða 13 ár, og nægilegt. Taki Alþingi ákvörðun sem er svo vitlaus að heilt sveitarfélag rís upp gegn þeirri ákvörðun hljóta 13 ár að nægja til að gera út um það mál. Það má minna á að 13 ár spanna a.m.k. fjögur venjuleg kjörtímabil Alþingis og a.m.k. fjórar ríkisstjórnir munu sitja á þeim tíma sitji hver þeirra í fjögur ár. 10 ár eru því góður tími og 13 ár nægur tími til að berjast fyrir málstað sínum í þessu ef menn telja hann góðan.

Ég vil ræða stutt um tvö, þrjú efni vegna þess að ég átti þess ekki kost að vera hér við 2. umr. Ég las framlag manna til 2. umr. og vil í tilefni af spurningum hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, um forræði iðnaðarráðherra um verndarmál, taka undir með formanni iðnaðarnefndar, hv. þm. Kristjáni Möller, að svo er ekki þótt við fljótan lestur megi áætla það. 3. gr. frumvarpsins hefur frá upphafi verið orðuð þannig, eða 1. mgr., að iðnaðarráðherra leggi fram þingsályktunartillögu um rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða í samráði og samvinnu við umhverfisráðherra. Svo geta menn spurt sig hvað þetta nákvæmlega þýðir en þetta er óvenjuskýrt orðalag og skýr skipun til ráðherranna um að starfa saman og þingmenn kalla að sjálfsögðu eftir því hverju sinni þegar þessi áætlun kemur hvernig því samstarfi hafi verið háttað með vísan í þessa grein.

Vekja má athygli á að iðnaðarnefnd hnýtti þessa hnúta enn þá betur með breytingu sinni, sem var samþykkt eftir 2. umr. málsins, við lok 10. gr. þar sem iðnaðarráðherra setur reglur um störf verkefnisstjórnar í samráði við umhverfisráðherra. Það er eðlilegt því að hluti verkefnisstjórnarinnar, a.m.k. eins og hún hefur verið skipulögð að sinni, hefur bein tengsl við umhverfisráðherra og miklu beinni en við iðnaðarráðherra. Svo er um búið í þessu frumvarpi, bæði eins og það var og eins og það er orðið, að verndarmál eru ekki á forræði iðnaðarráðherra heldur umhverfisráðherra. Í því sambandi verður að segja að með því að setja landsvæði þar sem virkjunarkostir kynnu að leynast eða hugmyndir eru uppi um virkjunarkosti í svokallaðan verndarflokk er þingið ekki að vernda svæðið heldur að setja það til ráðstöfunar í náttúruverndaráætlun. Síðan fer sú vél í gang sem lýkur með því að svæði fá formlega vernd hver sem hún er. Ákvörðun um að setja landsvæði í verndarflokk jafngildir því ekki formlegri vernd svæðisins, hvorki af þingsins hálfu né ráðherrans eða ráðherranna tveggja.

Nefna má að ráðherra setur þetta stjórnarfrumvarp fram í samráði við hina ráðherrana í ríkisstjórn sem hefur það að yfirlýstu markmiði að skipta Stjórnarráðinu þannig upp að að lokum verði til ráðuneyti sem heiti umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þegar það er orðið til, sem verður vonandi á næstunni, þarf ekki um þetta að deila því að þá er sumsé ráðherra umhverfismála sá sami og ráðherra auðlindamála og samráðið við önnur ráðuneyti eða við menn á öðrum sviðum samfélagsins fer þá fram með öðrum hætti en þeim að ráðherrarnir tali saman.

Mig langar að vekja athygli á mikilvægri áréttingu iðnaðarnefndar um biðflokkinn í nefndaráliti sínu við 2. umr. af því að ég var að tala um verndarflokkinn áðan. Ef ekki er lesið djúpt mætti ætla að í biðflokk féllu einungis þeir virkjunarkostir sem samkvæmt 1. mgr. 5. gr. er talið að afla þurfi frekari upplýsinga um. Það er auðvitað mjög mikilvægt að ekki sé ráðstafað landsvæðum til virkjunar eða til verndunar þegar upplýsingar liggja ekki skýrt fyrir, þær sem til þarf, en með áréttingu sinni hefur iðnaðarnefnd líka vakið athygli okkar þingmanna og annarra umvélenda í framtíðinni á því að biðflokkurinn tekur ekki aðeins til þessara svæða heldur líka til þeirra sem ekki er nægileg pólitísk sátt um að eigi að falla í nýtingarflokk eða verndarflokk. Í nefndarálitinu kemur þetta fram, með leyfi forseta:

„Fram kemur í 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins að í biðflokk falla virkjunarkostir sem er talið að afla þurfi frekari upplýsinga um svo meta megi á grundvelli þeirra sjónarmiða sem fram koma í 4. mgr. 3. gr. frumvarpsins hvort þeir eigi að falla í nýtingarflokk eða verndarflokk.“

Svo kemur þetta, með leyfi forseta:

„Í þessu sambandi vill nefndin árétta að við þetta mat skulu ráðherra og Alþingi einnig líta til almannahagsmuna, þyki rétt að virkjunarsvæði bíði um sinn frekari ákvörðunar.“

Þetta er mikilvægt og áréttar þá sögu sem frumvarpið segir. Fyrst kemur verkefnisstjórnin eða undirbúningshópurinn sem fyrst og fremst lætur stjórnast af faglegum sjónarmiðum. Það er ferli sem við viljum. Tillaga er lögð fyrir iðnaðarráðherra í samráði við umhverfisráðherra, eða til umhverfis- og auðlindaráðherrans þegar hann kemst á koppinn, og síðan bætir ráðherrann við hin faglegu sjónarmið eigin pólitísku sjónarmiði og sinnar ríkisstjórnar og leggur málið þannig fyrir Alþingi, þ.e. rammaáætlunina í hvert skipti. Alþingi tekur síðan við og ræðir bæði eftir þeim faglegu sjónarmiðum sem það hefur fengið í hendur og eftir pólitískum sjónarmiðum, þar sem sérfræði í pólitík er ekki síst á Alþingi þó að hún sé auðvitað víðar, og lokaniðurstaðan ræðst sumsé af þessu tvennu. Mörgum finnst pólitík vera ljótt orð, það er það ekki. Pólitík er gamalt grískt orð um að stjórna borg og pólitík er ákveðið fag. Stjórnmál eru mikilvæg og merkileg og þegar menn ráðstafa þessum svæðum verður að tryggja að pólitísk sjónarmið komist að. Þegar við tökum meira mark á og mikið mark á faglegu sjónarmiði í þessu efni og höfum komið okkur upp ákveðnu kerfi til þess eru hin mikilvægu pólitísku sjónarmið ekki þar með úti. Þá værum við að afhenda einhvers konar mandarínakerfi vísindamanna, fræðimanna og skriffinna öll völd í landinu. Við höfum ekkert leyfi til þess. Við erum samkvæmt stjórnarskránni kosin til að stunda stjórnmál og fremja landsins gagn og nauðsynjar og þess vegna fagna ég áréttingu iðnaðarnefndar.

Að lokum vil ég segja að það er sannarlega ánægjulegt að vera með í þeirri samstöðu sem hefur tekist um þetta mál í þinginu, eins og er búið að deila og þræta og velkjast í málefnum sem þessu eru skyld. Ég ætla ekki að ræða forsögu málsins heldur bara að minna á að viðhorf til þessa hafa breyst mjög mikið á undanförnum missirum og árum. Hugsunin í orkufyrirtækjunum sjálfum er orðin önnur og ekki síður í hinum orkufreku fyrirtækjum. Náttúruverndarsjónarmið hafa mjög aukist og eflst í landinu og eru farin að láta mjög á sér bera í stjórnmálum. Hér á þinginu eru a.m.k. þrír þingflokkar sem telja sig vera náttúru- og umhverfisverndarflokka og sjálfsagt fleiri. Við stöndum uppi á þeim tíma að geta borið gæfu til að breyta almennri stefnu í þessum efnum og þáttur í því er samþykkt frumvarps um farveginn sem við fjöllum hér um í 3. umr.

Þetta frumvarp gæti m.a. orðið til þess að við höfum uppi sjónarmið og markmið um skynsamlega og sjálfbæra orkunýtingu en hættum með öllu þeim hernaði gegn landinu sem Halldór Kiljan Laxness skrifaði um í árslok 1970, fyrir 41 ári, þegar margir þeir sem nú sitja í salnum að jafnaði voru á barnsaldri og sumir kannski ekki fæddir. Í þessu efni þarf að taka tillit til margvíslegra sjónarmiða og það má ekki flýta sér um of. Ég vona þegar kemur að þeirri rammaáætlun sem á að falla í farveginn sem við erum að skapa að í því framhaldi höldum við áfram þessari samstöðu og því tilliti til allra sjónarmiða, til landsins, til náttúrunnar, til kjara fólks nú og síðar og til tilfinninga fólks gagnvart lífi sínu, náttúrunni og umhverfi sínu, sem okkur ber að virða.