Verndar- og orkunýtingaráætlun

Þriðjudaginn 10. maí 2011, kl. 15:08:57 (0)


139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

77. mál
[15:08]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við tökum til umfjöllunar eitt mikilvægasta og brýnasta mál yfirstandandi þings, rammaáætlun um verndun og nýtingu svæða hér á landi. Ég segi eitt mikilvægasta og brýnasta mál þessa þings sakir þess að um þetta efni hafa verið allharkaleg átök og pólitískt rifrildi um langt árabil. Það er mál að linni, að menn snúi bökum saman og flokki þau svæði hér á landi niður eftir því hvernig þeir vilja helst og best nota þau í ófyrirsjáanlegri framtíð.

Frú forseti. Nú þegar eru um 19% landsins friðuð og lætur nærri að það séu um 20 þúsund ferkílómetrar af landinu. Það þarf að horfa betur til þeirra svæða sem þarf að vernda en jafnframt þarf að skilgreina betur þau svæði sem hægt er að nýta til ýmissa virkjanakosta svo að efla megi atvinnustig í landinu.

Fyrst að verndarflokknum sem er mikilvægur. Hann þarf að skilgreina til atvinnusköpunar í ferðaþjónustu. Eins og síðasti ræðumaður vék að hefur sjónarmiðum umhverfisverndar vaxið mjög fiskur um hrygg á undanförnum árum og er það vel því að við þurfum að horfa mjög til þeirra fræða sem geta aukið einstaka ferðaþjónustu sem Ísland býður upp á. Því er mjög mikilvægt að horfa til framtíðar með það fyrir augum að geta skipulagt þau svæði vel og dyggilega fyrir þann mikilvæga málaflokk sem ferðaþjónustan er og mun verða á komandi árum.

Í þessari rammaáætlun er landinu skipt í þrennt: Í þann verndarflokk sem ég gat um, í biðflokk og svo í nýtingarflokk. Væntanlega verða þeir virkjanakostir listaðir upp sem falla innan þeirrar sáttar sem vonandi er að takast. Ef ég horfi aðeins til starfa hv. iðnaðarnefndar sýnist mér mjög víðtæk sátt loksins vera að nást um þetta málefni og er það vel.

Þegar við horfum til framtíðar, hvort heldur er í verndunartilliti eða nýtingartilliti, sjáum við að gríðarlegir hagsmunir eru í húfi jafnt fyrir ferðaþjónustu inn í langa framtíð og annan atvinnurekstur. Þegar horft er í tölur hvað varðar virkjunarmöguleika hér á landi sést að stórt er hugsað hvað raunhæfa möguleika varðar jafnt sem akademíska. Sá sem hér stendur er nýkominn af fundi Landsvirkjunar þar sem reifaðir voru möguleikar á frekari orkunýtingu hér á landi. Fram kom að hægt væri út frá akademískum sjónarmiðum að fimmfalda orkuframleiðslu á landinu. En ef menn horfa til þeirrar sáttar sem vonandi er að takast með rammaáætlun um verndun og nýtingu landsins er ef til vill hægt að tvöfalda raforkuframleiðslu á 15 árum. Þar er rætt um að fara úr 17 teravattstundum, sem nú eru þegar virkjuð, upp í 30–40 teravattstundir. Það telja þeir sem gerst þekkja innan Landsvirkjunar vera innan þeirrar sáttar sem um ræðir. Sá sem hér stendur er ekki lærður á þessi fræði og vefengir ekki þessar tölur.

Þegar maður horfir til þess sem mögulegt er að virkja hér á landi — að það skuli vera hægt að fimmfalda raforkuframleiðsluna frá því sem nú er — sjáum við hvað er í húfi hvað verndurnarþáttinn snertir. Svo maður staldri enn frekar við tölur er hægt að bæta við um 11 teravattstundum í orkuframleiðslu á næstu 15 árum sem þýðir 80–90 milljarða kr. fjárfestingu á ári sem aftur þýðir 8–10 þúsund störf og hagvöxt í námunda við það sem mest hefur verið hér á landi. Þetta þarf allt að meta með tilliti til landnotkunar þegar við erum komin með þær staðreyndir á borðið sem verið er að vinna að með rammaáætluninni. Við erum að skilgreina hvað er með skynsamlegum hætti hægt að virkja í framtíðinni með margvísleg atvinnutækifæri í huga, hvað er eðlilegt að leggja til hliðar til verndunar og svo fer það sem út af stendur og um er deilt í biðflokk. Þetta er skynsamleg leið sem ég tel að hefði átt að fara fyrir löngu því að við hana geta allir unað sæmilega og miðað við þá samstöðu sem er að nást í hv. iðnaðarnefnd sýnist mér hún vera þverpólitísk.

Ég vil nota tækifærið, frú forseti, og hrósa nefndarmönnum í iðnaðarnefnd fyrir þeirra starf á undanförnum vikum og mánuðum og sér í lagi formanni nefndarinnar fyrir að hafa leitt menn til þeirrar sáttar sem nú er raunin.

Málefni sveitarfélaganna hafa vissulega komið til tals í þessu starfi öllu. Sveitarfélögin fara með skipulagsvaldið á heimaslóðum sínum og því kunna tvenn ólík sjónarmið að takast á, annars vegar að taka þetta tröllvaxna gamla deilumál upp úr gömlum hjólförum og leiða til sáttar og hins vegar að ganga ekki á rétt sveitarfélaganna sem eiga og geta samkvæmt landslögum skipulagt heimasvæði sín í þaula. Farin hefur verið leið sáttar hvað það varðar einnig. Hv. iðnaðarnefnd hefur fengið á fund sinn oftar en einu sinni fulltrúa sveitarfélaganna sem höfðu uppi efasemdir um og andmæltu að þeim væri gert skylt að setja virkjunarkosti í nýtingarflokk inn á aðalskipulag sveitarfélaganna þótt ekkert lægi fyrir um að ráðist yrði í viðkomandi virkjunarkost í fyrirsjáanlegri framtíð. Fresturinn var lengdur um þrjú ár, úr 10 árum í 13 ár, og þannig komið til móts við kröfur og vilja sveitarfélaganna. Það er vel að sú leið var farin. Sveitarfélögin höfðu reyndar ekki uppi sömu sjónarmið hvað varðar verndunarflokkinn en það er önnur saga.

Að öllu samanlögðu, virðulegi forseti, er hér á ferðinni afar merkilegt mál ef ekki eitt það merkilegasta sem fyrir þessu þingi liggur. Hér er að nást mikilvæg sátt á milli andstæðra sjónarmiða sem hafa verið fyrirferðarmikil í umræðunni á undanförnum árum. Þessir þrír flokkar eru ef til vill til vitnis um þá farvegi sem umræðan hefur verið í. Menn hafa tekist á um verndarsvæði og virkjanasvæði en sáttin felst í að skilgreina þetta tvennt svo og að búa til biðflokkinn sem að mati þess sem hér stendur er mjög mikilvægur því að hann er farvegur til enn frekari sátta.