Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 10. maí 2011, kl. 16:04:33 (0)


139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[16:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, vissulega kom til greina að fella alveg út þau tengsl sem hið opinbera ætlaði þá að hlutast til um. Viðkomandi félag skal halda nákvæma skrá yfir hvaða aðila er um að ræða. Hún skal liggja frammi hjá þeim sem óskað er eftir að gjaldið sé innheimt hjá. Það verður að ríkja traust á því að skráin sé rétt og að fyrir liggi skrifleg ósk viðkomandi um að þetta sé gert með réttum hætti.

Ég tel það vera skynsamlegt í erfiðri stöðu, þröngri stöðu. Ég vil t.d. minna á að Landssamband smábátaeigenda og önnur slík félög sem eru með fjölda manns innan borðs vinna í rauninni með beinum eða óbeinum hætti oft að málum sem snerta almannahag, ekki bara einstakra félagsmanna og hag ríkisins, heldur hag greinarinnar og framkvæmd stjórnsýslumála þó að það sé ekkert skilgreint eða lögbundið hlutverk þeirra á öllum sviðum. Þess vegna er það tillaga mín að þeim valkvæða möguleika sé haldið inni.

Það er afstaða mín, frú forseti, en eðlilega geta verið skiptar skoðanir um það þótt svo það sé lagt til afdráttarlaust í frumvarpinu.