Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 10. maí 2011, kl. 16:28:28 (0)


139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[16:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir þessi svör. Það vakti einfaldlega fyrir mér að reyna að leiða það skýrt fram hvort um væri að ræða það fyrirkomulag sem hæstv. ráðherra sagði að verið hefði til skoðunar á fyrri stigum málsins en ekki varð niðurstaða um, eða hvort niðurstaðan hefði verið sú að þetta væri þá fullkomlega valkvætt. Þeir útgerðarmenn sem kjósa að hafa það fyrirkomulag sem frumvarpið gerir ráð fyrir verða þá að óska sérstaklega eftir því að það verði þannig. Þeir verða að óska eftir því við þann sem annast milligöngu um meðferð þessa fjár, verða þá að óska eftir því þangað til þess að það fyrirkomulag verði á. Þetta svarar spurningum mínum vel.

Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að vitaskuld er það það sem við verðum fyrst og fremst að tryggja í þessu, þ.e. að þetta fyrirkomulag, hvernig sem niðurstaða málsins verður eftir yfirferð sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, verði að fullu og öllu leyti í samræmi við stjórnarskrána.