Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 10. maí 2011, kl. 16:48:02 (0)


139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[16:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var eiginlega andsvar við ræðu minni, dálítið langt andsvar reyndar og kannski var þetta þess vegna valið sem ræða.

Það sem gerst hefur er að stéttarfélögin, sem ég tel að hafi gegnt mjög mikilvægu hlutverki í upphafi, gegnt mjög mikilsverðu hlutverki við að rétta kjör þeirra sem verst eru settir, breyttust í stofnanir. Þau eru orðin stofnanir í dag. Maður sér það á því að flestöll verkalýðsfélög höfðu skoðun og áhuga á Icesave, þau voru bara eins og flokkar. ASÍ tilkynnti að við ættum að samþykkja Icesave og aðildin að Evrópusambandinu skiptir félögin líka heilmiklu máli. Þetta er löngu komið út fyrir venjulega stéttabaráttu sem var í árdaga þar sem menn börðust um kaup og kjör, hvað þeir fengju í laun. Menn eru búnir að gleyma upprunanum og það er það sem ég er alltaf að minna á. Ég er að minna stofnanagerða verkalýðsbatteríið á upprunann, hvaðan menn koma.

Stéttarfélög hefðu vissulega mikið hlutverk núna, ég geri ráð fyrir því að margir starfsmenn á leikskólum, umönnunardeildum, spítölum og víðar hefðu virkilega þörf á því að fara í verkalýðsbaráttu í dag. Þeir bara mega það ekki af því að stofnanakerfið er búið að banna það. Þetta er gert að kröfu BSRB, 2. mgr. 7. gr. Það sem við fjöllum um hér er líka gert að kröfu stéttarfélaga eða samtaka útgerðarmanna.

Ég vil að stéttarfélögin muni eftir upprunanum. Ég vil ekkert endilega taka upp kerfið sem Thatcher kom á en hins vegar bjargaði hæstv. ráðherra deginum fyrir mér. (Gripið fram í.)