Barnalög

Þriðjudaginn 10. maí 2011, kl. 17:39:36 (0)


139. löggjafarþing — 120. fundur,  10. maí 2011.

barnalög.

778. mál
[17:39]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er fínt að áhersla skuli vera lögð á sáttaleið í þessum málum en ég er ekki að tala um sáttaleiðina. Ég er að tala um það þegar mál fara fyrir dóm og ég vona að hæstv. innanríkisráðherra geri sér grein fyrir því að þrátt fyrir aukna áherslu á sáttaleið, sem er fín, þá munu mál engu að síður fara fyrir dómstóla.

Málið snýst um að annars staðar á Norðurlöndum og í mun fleiri ríkjum hefur dómari heimild til að dæma sameiginlega forsjá vegna þess að það er talið barni fyrir bestu í sumum tilvikum þegar kemur til ágreinings. Mér fannst svar hæstv. ráðherra með ólíkindum, að ekki eigi að veita þessa heimild vegna þess að reynslan sýni að dómarar dæmi yfirleitt þannig að það sé vont fyrir barnið. Ég veit ekki alveg hvað ég á að gera við þetta svar. Getur verið að reynslan hér á landi sé sú sem hæstv. ráðherra lýsir vegna þess að tiltekin dómaraheimild hefur ekki verið til staðar, nefnilega heimildin (Forseti hringir.) til að dæma forsjá sameiginlega, og dómarar hafa alltaf þurft að standa frammi fyrir því að dæma öðrum hvorum aðilanum forsjána og kannski sé það ekki farsælt?