Gjaldeyrismál og tollalög

Fimmtudaginn 12. maí 2011, kl. 12:28:24 (0)


139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:28]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gjaldeyrishöftin eru hluti af efnahagsáætlun AGS og reyndar sá hluti sem ég er hvað sáttust við. Vandamálið við gjaldeyrishöftin er hins vegar það að fjármagnið sem lokaðist inni eftir að þau voru sett á hefur ekki verið notað til þess að fara í fjárfestingar í íslensku atvinnulífi. Það hefði verið hægt að neyða eigendur þessa fjármagns til að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum með t.d. mjög lágu vaxtastigi og fyrirheitum um háan skatt á útstreymi fjármagns en því miður var sú leið ekki farin m.a. af tillitssemi við erlenda fjármagnseigendur.

Með þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að gjaldeyrishöftunum verði smám saman aflétt með uppboðsmarkaði og vonir standa til að lífeyrissjóðirnir komi inn með erlendar eignir sínar og kaupi á þessum uppboðsmarkaði krónur á aflandsgengi eða á miklum afslætti. Ég óttast hins vegar að þegar þessar krónur eru komnar inn í þetta hagkerfi eigi lífeyrissjóðirnir erfitt með að ná þeirri raunávöxtun sem þeir telja sig þurfa að ná til að geta tryggt hér mannsæmandi lífeyri og að lífeyrissjóðirnir muni þrýsta á ríkisvaldið að grípa til aðgerða til að tryggja eða koma á einhvers konar ríkisábyrgð þannig að þeir nái þessari lágmarksávöxtun. (Forseti hringir.) Með öðrum orðum, ég óttast að ríkið fari þá að bjóða út ríkisskuldabréf á allt of háum vöxtum eða jafnvel að selja bréf eða hlut sinn í orkufyrirtækjum (Forseti hringir.) á brunaútsölu.