Gjaldeyrismál og tollalög

Fimmtudaginn 12. maí 2011, kl. 12:34:49 (0)


139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:34]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það atriði sem hv. þingmaður nefndi að áætlun um afnám gjaldeyrishafta ætti að leiða til þeirrar hættu að ríkið þyrfti að selja eignir á brunaútsölu, þá skil ég ekki alveg þá röksemdafærslu því að eins og staðan er í dag er ofgnótt fjár í landinu miðað við þær eignir sem eru í boði og ég á erfitt með að sjá að það að auka á magn þess fjár með heimflutningi eigna lífeyrissjóðanna mundi draga úr hættu á verðþenslu heldur þvert á móti auka líkurnar á því. Ef eitthvað væri ættum við að getað fengið enn hærra verð fyrir eignir sem við mundum setja á markað miðað við þá röksemdafærslu.

Varðandi framhald samstarfsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þá rennur það út í lok ágúst að óbreyttu og ég held að það sé mjög mikilvægt að það samstarfsferli sem við höfum verið í með sjóðnum renni sitt skeið á þeim tíma. Það undirstrikar árangurinn af efnahagsendurreisninni á Íslandi að við skulum útskrifast úr þessu prógrammi, sem hefur verið okkur til mikils góðs og auðveldað okkur að koma í veg fyrir það velferðartap sem óhjákvæmilega hefði annars orðið af aðhaldsaðgerðum í kjölfar efnahagshrunsins. Það er líka mikilvægt fyrir sjóðinn til að geta sýnt fram á árangurinn af samvinnu við ríki að hægt sé að loka málum hratt og örugglega.

Við viljum hins vegar vera áfram í góðu sambandi við sjóðinn. Það er til umræðu með hvaða hætti það verður gert. Sjóðurinn mun koma hingað til reglulegs eftirlits meðan við skuldum honum peninga. Það er mjög mikilvægt að nýta þá þekkingu sem sjóðurinn hefur og sérfræðiþekkingu hans til að styðja við efnahagsáætlun okkar áfram. Það er líka umhugsunarefni hvort við munum þurfa á aðgangi að þrautavaralánafyrirgreiðslu að halda áfram og þá væri athugunarefni að semja um það við sjóðinn. Miðað við þær aðstæður að við höfum ekki enn farið út á fjármagnsmarkaðinn (Forseti hringir.) og látið á það reyna hvaða kjör bjóðast Íslandi er alveg umhugsunarefni hvort við eigum ekki að tryggja okkur einhvers konar þrautavaralánafyrirgreiðslu. Allt er þetta til umræðu (Forseti hringir.) núna en áætluninni lýkur í ágúst.