Gjaldeyrismál og tollalög

Fimmtudaginn 12. maí 2011, kl. 12:37:15 (0)


139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:37]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og greidd voru atkvæði um fyrr í dag var samþykkt á Alþingi að taka þetta mál til umfjöllunar á þinginu með afbrigðum sem þýðir að hv. þingmenn hafa fengið minni tíma en venja er til að kynna sér efni þess. Það er auðvitað bagalegt þegar um svona mikilvægt mál er að ræða, breytingar á lögum um gjaldeyrismál sem varða sjálf gjaldeyrishöftin og ekki síður þegar til þess er litið að frumvarpið er upp á heilar 48 blaðsíður. Af þeim ástæðum hefur maður ekki fengið tækifæri til að kynna sér frumvarpið eins rækilega og maður hefði annars viljað gera. En gott og vel, ég greiddi tillögu um að veita málinu afbrigði atkvæði mitt vegna þeirra skýringa sem fram komu hjá hæstv. ráðherra og þá þarf ég að leita eftir útskýringum hjá honum um meginatriði frumvarpsins. Mig langar að byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé rétt skilið hjá mér að með frumvarpinu sé í rauninni ekki verið að gera neinar grundvallarbreytingar á þeim reglum sem hingað til hafa gilt um fjármagnsflutninga á milli landa. Með öðrum orðum: Er í rauninni ekki verið að lögfesta með frumvarpinu þær reglur Seðlabankans um gjaldeyrismál sem hann hefur sett með einhvers konar minni háttar breytingum eins og gefið er til kynna í greinargerð? Ég get ekki lesið annað út úr þeim kafla greinargerðarinnar sem fjallar um meginefni frumvarpsins en að svo sé og óska eftir að fá staðfestingu á því frá hæstv. ráðherra.