Gjaldeyrismál og tollalög

Fimmtudaginn 12. maí 2011, kl. 12:42:57 (0)


139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:42]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þessa athugasemd þá er það rétt hjá hv. þingmanni að skilgreiningu á hugtakinu aflandskrónur er ekki að finna í lögunum. Hugtakið er skilgreint í greinargerðinni og áætluninni um afnám gjaldeyrishafta sem prentuð er sem fylgiskjal með frumvarpinu. Þar er hugtakið aflandskrónur skilgreint og með hvaða hætti gert er ráð fyrir að vinna úr aflandskrónustöðunni á þeim tíma sem áætlunin tekur til.

Það er full ástæða til að benda hv. efnahags- og skattanefnd á að meta það í meðförum málsins hvort ástæða sé til að fella þá skilgreiningu sem er að finna í áætluninni um afnám gjaldeyrishafta inn í lögin. Það kann að vera rétt, eins og hv. þingmaður bendir á, að það geti þjónað réttaröryggishagsmunum að gera það og eðlilegra sé að slík skilgreining sé í lögunum sjálfum.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir athugasemdina og held að full ástæða sé til að beina því til nefndarinnar að líta sérstaklega til þess atriðis.