Gjaldeyrismál og tollalög

Fimmtudaginn 12. maí 2011, kl. 14:01:40 (0)


139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[14:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum framlengingu á gjaldeyrishöftum og ekki bara í nokkra mánuði í þetta skipti heldur um mörg ár.

Þegar gjaldeyrishöftin voru illu heilli sett upp af illri nauðsyn og samþykkt haustið 2008 stóð ég að því í trausti þess að þetta mundi vara í nokkra mánuði. Það var ekki skemmtileg staða að þurfa að standa að því að taka upp gjaldeyrishöft. En það er eðli slíkra hafta að það lengist í þeim aftur og aftur. Það er búið að framlengja gjaldeyrishöftin alla vega í tvígang og á núna að framlengja þau út árið 2015, sem er gífurlega mikil framlenging.

Ég veit ekki hvort ég þarf að fara hér yfir mjög skaðleg áhrif gjaldeyrishafta. Þau valda niðurbroti á siðferði, stuðla að glæpsamlegu atferli og hafa oft mjög skringilegar hliðar. Ein sú skringilegasta er að ef ég ætti launareikning í Þýskalandi, ef ég hefði unnið þar í stuttan tíma í sumar, ætti þar launareikning og það væri pínulítil innstæða þar inni, kannski 10 mörk eða eitthvað svoleiðis, og ef ég fengi eitt evrusent í vexti bæri mér samkvæmt íslenskum lögum að millifæra það og koma því, þessu eina senti, til Íslands.

Þeir vita það sem einhvern tíma hafa komið nálægt slíku að það kostar að millifæra, talið er að það kosti jafnvel 2.500 kr. að millifæra þessa aura til Íslands. Eitt evrusent er væntanlega næstum tvær krónur, eitthvað svoleiðis. Svo yrði ég að sjálfsögðu að borga af þeim fjármagnstekjuskatt, þessum ógurlegu tekjum mínum sem ég er búinn að kosta 2.500 kr. til að koma til landsins. Það er náttúrlega hin hlálega hlið á þessu þar sem skynsemin virðist hafa yfirgefið ágætlega skynsamt fólk og því verðum við að breyta. Ég mun leggja til í hv. efnahags- og skattanefnd þar sem ég á sæti að því verði breytt þannig að menn fari ekki að gutla með svona smáaura því að það eru stóru tölurnar sem við höfum áhuga á.

Það hafa komið upp mál í þessu sambandi sem eru áhöld um hvort varði við lög eða ekki vegna þess að þau voru undir lögsögu annars ríkis. Eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson rakti ágætlega fyrir hádegi eru áhöld um lagalega bindingu eða lagalega stöðu auglýsinga sem Seðlabankinn hefur staðið að. Ég ætla ekki að hætta mér út í þá sálma enda ekki lögfræðingur en það býður örugglega heim mörgum lagalegum túlkunum út og suður.

Það sem er verst við gjaldeyrishöftin er að þau hamla allri fjárfestingu. Útlendingar þora ekki að fjárfesta á Íslandi ef þeir vita ekki hvort þeir geta náð í peningana sína aftur. Ef þeim skyldi detta í hug að hætta við fjárfestinguna, draga sig til baka, selja hana eða eitthvað slíkt, vita þeir ekkert hvað verður þann daginn sem það gerist því að fyrirkomulaginu hefur oft verið breytt. Það veikir líka trú manna á gjaldmiðlinum, fyrst hann þarf svona sterkar hindranir hlýtur hann að vera mun veikari en hann er í reynd og sumir telja jafnvel að gjaldeyrishöftin veiki gjaldmiðilinn vegna þess að það fæst aldrei raunverulegt mat á honum, hvers virði hann væri í algjöru frelsi. Menn hafa verið hræddir við að aflétta höftunum vegna þess að þeir búast þá við fjárflótta frá Íslandi, sem er ekki víst að gerist vegna þess að gengi krónunnar er fáránlega lágt í dag. Það er reyndar að falla, sem er dálítið sérkennilegt í ljósi þess að kjarasamningar byggja á því að gengisvísitalan verði komin upp í 190 í árslok 2012, ef ég man rétt. En gengið á að styrkjast samkvæmt kjarasamningum, það er forsenda þeirra. Trúverðugleiki samninganna er þvílíkur að gengið fellur eftir að búið er að skrifa undir samningana þannig að menn hafa ekki mikla trú á að það ákvæði haldi.

Gjaldeyrishöft eru ætíð mjög skaðleg og ég hef ekki skilið það af hverju Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til eða samþykkti gjaldeyrishöft en var á móti tvöföldu gengi. Ég lagði til á sínum tíma að það yrði hreinlega haft tvöfalt gengi, þ.e. að Seðlabankinn tæki að sér uppboð á þessum aflandskrónum sem frægar eru og kláraði það dæmi á ákveðnum tíma. Þá mundi gengi beggja myntanna, þ.e. íslensku krónunnar á Íslandi og íslensku krónunnar í útlöndum, væntanlega nálgast eftir smátíma. Þá væri hægt að aflétta þessum höftum, sérstaklega vegna þess hvað gengið er orðið lélegt og allar eignir á Íslandi orðnar lítils virði ef þær eru mældar í erlendri mynt, það lítils virði að ég get alveg séð fyrir mér að fjöldi manns sem býr í útlöndum og hefur tengsl við Ísland sjái sér leik á borði og fjárfesti í t.d. fasteignum á Íslandi af því að þær eru orðnar svo ódýrar í evrum talið og ýmsu fleira, jörðum o.s.frv. Ég get alveg séð fyrir mér að margir sjái sér leik á borði að kaupa fyrirtæki og annað slíkt ef gjaldeyrishöftunum verður aflétt.

Í staðinn fyrir að lengja svona mikið í gjaldeyrishöftunum mundi ég skoða möguleika á því að hafa uppboðsmarkað fyrir íslenskar krónur erlendis, aflandskrónur, og stefna að því að afnema gjaldeyrishöftin fljótlega í kjölfarið. Það mætti gera þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sleppt verndarhendi sinni af okkur og hættir að hlutast til um að við séum með gjaldeyrishöft í stað tvöfalds gengis í einhvern smátíma.