Staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls

Föstudaginn 20. maí 2011, kl. 12:20:42 (0)


139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[12:20]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili reyndar ekki áhyggjum hv. þingmanns um það að þessi lagasetning muni á einhvern hátt tefja fyrir þróun tæknilausna sem eru engu að síður mikilvægar til þess einmitt að jafna aðstöðumun í landinu og styðja þá hópa sem þurfa að reiða sig á táknmálið og slíkar tæknilausnir til tjáningar og samskipta.

Ég tek hins vegar heils hugar undir með hv. þm. Pétri Blöndal um mikilvægi þess að nýta kosti leiksins í skólastarfi okkar. Ég nefndi það reyndar í ræðu minni að ég teldi að við ættum að nýta okkur þá sköpun sem á sér stað í leikjaiðnaðinum, sem er ein af þeim atvinnugreinum sem vex nú hvað hraðast í atvinnulífi okkar, til þess einmitt að fara inn á ný lönd í námsgagnagerð í okkar samfélagi. Ég held að slíkt hjónaband milli leikjaiðnaðarins og skólakerfisins gæti skilað mjög miklum árangri einmitt til að kveikja áhuga, til að tryggja það að við náum því besta út úr hverjum einasta nemanda í íslenska skólakerfinu. Ég tel að það sé ein höfuðskylda okkar á þinginu þegar menntamálin eru annars vegar til að tryggja það að þessar allt of háu tölur um brottfall sem við sjáum bæði í framhaldsskólum og háskólum lækki verulega á næstu árum. Eitt það afdrifaríkasta sem við getum gert í löggjafarstarfinu er að tryggja það að allir nemendur komist til manns og að hæfileikar allra séu nýttir þrátt fyrir þær sérþarfir sem óhjákvæmilega búa hjá einstökum hópum og einstökum einstaklingum.