Staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls

Föstudaginn 20. maí 2011, kl. 12:28:15 (0)


139. löggjafarþing — 131. fundur,  20. maí 2011.

staða íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

533. mál
[12:28]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum við 2. umr. frumvarp til laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Ég sagði í 1. umr. um þetta mál að ég teldi það sýna kjark hæstv. menntamálaráðherra að leggja frumvarpið fram, og ég er enn þeirrar skoðunar. Það þarf kjark til að stíga það skref sem gert er með framlagningu þessa frumvarps, bæði hvað varðar íslenska tungu og stöðu íslensks táknmáls.

Í fyrsta sinn er verið að segja, í lögum frá Alþingi, að íslenska sé þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi. Ég vona að þeir sem nú sitja á stjórnlagaráðsþingi horfi til þessa frumvarps og setji í stjórnarskrána ákvæði um þjóðtungu okkar, íslensku.

Við höfum líka rætt um það, og það er í frumvarpinu, að íslenskan sé opinbert mál stjórnvalda og lagt er til, mjög skýrt og skorinort, að mál það sem notað er í starfsemi ríkis og sveitarfélaga eða á vegum þeirra eigi að vera vandað, einfalt og skýrt. Þessi grein, sem er 9. gr. frumvarpsins, ætti að eiga við á hinu ágæta Alþingi, ekki bara í frumvörpum sem lögð eru fram og lagasetningu heldur ættum við þingmenn kannski stundum að velta því fyrir okkur hvað við segjum og hvernig við segjum það. Við ættum að reyna að tala vandað, einfalt og skýrt íslenskt mál. Þá væri kannski minna um misskilning, hártoganir og illindi í orðum á milli þingmanna.

Frú forseti. Það sem er nýtt og sérstakt í frumvarpinu er 3. mgr. 3. gr. þar sem rætt er um að íslenskt táknmál sé fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og afkomenda þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og að stjórnvöld skuli hlúa að því og styðja.

Frú forseti. Þetta er stórt skref, ekki bara í réttindabaráttu þeirra sem þetta tungumál nota heldur er þetta líka táknrænt fyrir þann kjark hæstv. menntamálaráðherra að fara fram og óska eftir því við þingið að það bindi þetta í lög.

Ég er stolt af því, frú forseti, að hafa setið í menntamálanefnd. Ég er stolt af því, frú forseti, að vera þingmaður sem mun eiga þátt í því að lögfesta á Alþingi að íslenskt táknmál verði fyrsta mál þeirra sem það kjósa. Ég er stolt af starfi menntamálanefndar sem fór einhuga í þetta verkefni og leysti það af hendi eins og það liggur fyrir.

Ég vil taka undir orð formanns nefndarinnar, þegar hann kom inn á réttindi blindra, sem ekki er getið í frumvarpinu. Vegna sérstöðu blindra þarf löggjafinn og þá margur annar að velta fyrir sér stöðu íslenska punktaletursins þeim til hagsbóta sem það nota. Einhvers staðar þarf að binda það og festa en íslenska punktaletrið er ekki tungumál og því er þess ekki getið í frumvarpinu eins og ýmsir hefðu kannski óskað.

Það má líka sjá í frumvarpinu að íslenskunni sjálfri sem þjóðtungu og íslensku táknmáli er í 5. og 6. gr. gert jafnhátt undir höfði vegna þess að hér á að setja á laggirnar málnefnd um íslenskt táknmál á sama hátt og til er íslensk málnefnd. En ég deili áhyggjum hv. þm. Eyglóar Harðardóttur af því að orðum fylgi ekki athafnir. Það er rétt að fram komu harðorð mótmæli frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna kostnaðargreiningar sem sambandið telur að vanti.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Eyglóar Harðardóttur verður máltakan á fyrstu æviárunum — fyrsta skólastigið er leikskólinn þar sem jafnt eru nemendur sem eru heyrnarskertir, heyrnarlausir, talandi og heyrandi. Á einhvern hátt verður að tryggja að þeir nemendur sem þurfa að nýta sér táknmál og eru á leikskólum njóti þeirrar þjónustu. Þá þurfa menn líka að hafa í huga, til að ekki komi til félagsleg einangrun barna á leikskóla, að þeir sem eru á sömu deild verða að fá lágmarkskennslu, leikskólakennarar og aðrir, til að geta haft samskipti við einstakling sem notar íslenskt táknmál sem sitt tungumál.

Það kom fram hjá fulltrúa Samskiptamiðstöðvar að líklega fæddust fjögur til fimm börn á Íslandi ár hvert sem yrðu heyrnarlaus. Verkefnið er því kannski ekki stórt en um það getum við sjaldnast sagt. Ég hef fulla trú á því að sveitarfélögin í landinu og ríkið sameinist um að þetta frumvarp verði ekki bara heildarlöggjöf heldur að fram komi í sérlögum ýmsum hvernig við ætlum að tryggja þessi réttindi, tryggja að íslenskt táknmál verði fyrsta mál og fólk geti nýtt sér það. Ég treysti því að menntamálaráðuneytið, í samvinnu við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra, tryggi þeim sem eignast barn sem er heyrnarlaust, sem og börnum sem eru heyrandi og talandi og eiga foreldra sem tala táknmál, aðgengi að því að læra táknmálið. Við erum með löggjöf sem okkur hugnast, löggjöf sem við erum stolt af, löggjöf sem tryggir réttindi þeirra sem nota þetta tungumál og við verðum að tryggja að orðum okkar fylgi athafnir þannig að sá veruleiki sem við sjáum fyrir okkur í frumvarpinu verði raunverulegur veruleiki.

Ég vil leyfa mér, frú forseti, að þakka enn og aftur hæstv. menntamálaráðherra fyrir þann kjark sem ég tel að hún hafi sýnt. Ég held að þegar fram líða stundir verði þetta eitt mikilvægasta frumvarp sem hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt fram, og margur maðurinn muni minnast. Ég tel líka að menntamálanefnd eigi hrós skilið fyrir vinnu sína og hvernig hún hafi tekið á þessu máli. Fyrst og síðast ætla ég að óska íslensku þjóðinni til hamingju með að íslenskan er og verður væntanlega með þessu frumvarpi þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi og að við lögfestum að íslenskt táknmál verður fyrsta mál þeirra sem það kjósa.