Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 12:29:01 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra reyndi að skjóta sér undan umræðu um að hér liggur fyrir að 32 sinnum í efnisgreinum í þessu litla frumvarpi er hann nefndur sérstaklega á nafn. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að þetta er í samræmi við þá stefnumörkun sem hæstv. ráðherra hefur fylgt í frumvörpum sínum í sjávarútvegsmálum og meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og meiri hluti Alþingis hefur látið það yfir sig ganga að færa mjög mikið vald frá löggjafarsamkomunni til framkvæmdarvaldsins, til hæstv. ráðherra. Nú fetar hann þessa braut áfram og enn frekar í stóra frumvarpinu.

Ég spurði hæstv. ráðherra hvers vegna hann stigi ekki skrefið að minnsta kosti í þá áttina að tryggja að sú aukning sem nú er að verða í veiðigjaldinu rynni algjörlega til byggðanna eins og hann talar um. Hæstv. ráðherra segir í lok ræðu sinnar að hann sé meira en tilbúinn til þess að auka þessar heimildir enn þá meira. Það er athyglisvert, ekki síst í ljósi þess að hæstv. ráðherra er borinn þeim sökum af hæstv. fjármálaráðherra, (Forseti hringir.) í umsögn fjármálaráðuneytisins, að hann sé mögulega að brjóta stjórnarskrána í þessu ákvæði.