Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 12:38:01 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er engan veginn sammála hv. þingmanni sem fullyrðir að þetta frumvarp gangi berlega í berhögg við stjórnarskrána. Ég held að hv. þingmaður geti ekki einu sinni fullyrt það sjálf. Hins vegar er pólitísk stefnubreyting í því. Menn geta velt fyrir sér jafnræðismálum á ýmsan hátt. Menn geta til dæmis velt því fyrir sér hvort eitthvert jafnræði sé í því að íbúar í ákveðnum landshlutum þurfa að borga miklu hærra raforkuverð en íbúar í öðrum landshlutum. Þegar nýju raforkulögin voru innleidd var íbúunum lofað að ríkið kæmi á móti með fjármagn og tryggði eins og kostur væri jafnt raforkuverð um allt land. Það var ekki staðið við það. Hvar eru jafnræðisreglurnar hvað það varðar? Þetta er bara dæmi. Þegar menn tala um jafnræði er það yfirleitt til að ná einhverju til sín. En hérna er (Forseti hringir.) lagt til að staða sjávarbyggðanna verði virt hvað þetta varðar. Málið hefur fengið lögfræðilega umsögn hjá (Forseti hringir.) forsætisráðuneytinu og fer þannig. Hins vegar má alveg skoða útfærsluna á þessu máli, herra forseti.