Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 12:39:31 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:39]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykja þessi svör hæstv. ráðherra sýna afskaplega lítinn skilning á því hvað felst í stjórnarskránni. Hann ber saman taxta út af raforkumálum og þá skattlagningu sem hér er boðuð þar sem skattfé landsmanna er úthlutað mjög svo tilviljanakennt. Það er algjörlega kýrskýrt, virðulegi forseti, að ráðherrann er kominn á mjög hálan ís þegar kemur að jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og hann hefur af því afar litlar áhyggjur.

Hvaða álitsgerð hefur ráðherrann látið vinna til að kanna lagagrundvöllinn þarna? Vill hæstv. sjávarútvegsráðherra ekki vera öruggur um að hann sé ekki að brjóta stjórnarskrána? Vill hann ekki hafa vissu fyrir því áður en hann leggur fram frumvarpið sem hér er gert? Og finnst honum engu máli skipta þegar kemur umsögn frá fjármálaráðuneytinu sem beinlínis hafnar þessari leið ráðherrans? Skiptir það heldur engu máli? Kallar það ekki á neina athugun af hálfu ráðherrans? (Forseti hringir.) Hvers konar vinnubrögð eru þetta, virðulegi forseti?