Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 12:40:43 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég treysti Alþingi til að fara yfir það ef þetta verður talið svo alvarlegt mál að þessi leið sé ekki fær. Ég veit að hv. þingmaður hefur ekki tök á að koma upp í andsvar aftur en í seinni ræðu gæti hún brugðist við. Ég held að fólk þurfi að taka afstöðu til stöðu sjávarbyggðanna, hversu mikilvægar sjávarbyggðirnar eru til að halda byggðamunstri, útgerð og vinnslu í landinu. Hver hefur staða þeirra verið? Hefur það verið á jafnræðisgrunni? Nei, ekki að mínu mati. (Gripið fram í.)

Ég held að við skuldum sjávarbyggðunum heldur betur að leiðrétta hlut þeirra og treysta hann. Hér er gerð tillaga um leiðir í þeim efnum en Alþingi fær þetta mál í hendur sínar og leggur mat á það. Þetta er bara mín tillaga.