Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 12:44:04 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[12:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef við lítum á málið heildstætt er það grundvallaratriði að við Íslendingar eigum tekjur ríkissjóðs og auðlindir Íslands jafnt. Við tökum síðan pólitískar ákvarðanir á Alþingi um það hvort einstök byggðarlög þurfi meiri stuðning eða frekari aðgerðir frá einu ári til annars. Það er samt grundvallaratriði að við eigum tekjur ríkissjóðs og tekjurnar af auðlindum landsmanna saman. Reykvíkingar eiga ekki allar þær virðisaukaskattstekjur sem verða til í Reykjavík, svo dæmi sé tekið, þó að það gæti verið okkur hér hagfellt.

Þess vegna held ég að þetta atriði þurfi að koma til alveg sérstakrar skoðunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji eðlilegt að þetta frumvarp komi inn í það þjóðaratkvæðagreiðsluferli sem hæstv. forsætisráðherra hefur boðað um frumvörp ráðherrans.