Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 15:14:39 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ýmislegt hefur komið í hugann við lestur þess frumvarps sem hér er á dagskrá. Eitt af því er örstutt frásögn úr snilldarverkinu Kristnihald undir Jökli eftir Halldór Laxness sem hefur þráfaldlega komið mér í hug þegar ég hef lesið í gegnum þetta frumvarp, og þessi frumvörp sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flytur, sem hefur birst á Alþingi, raunar með miklum kveinstöfum og harmkvælum. Þetta er sagan af því þegar sá mikli umboðsmaður biskupsins yfir Íslandi var sendur á fund merkisklerksins séra Jóns Prímuss til að aðgæta framkvæmd prests á guðdómnum. Þar hitti Umbi, sem svo er kallaður í sögunni, fyrir þá fínu frú, Fínu Jónsen, og spurði tíðinda af gestkomandi manni á prestssetrinu. Frúin sagðist ekkert eiga vantalað við hann og bætti svo við þessari minnisstæðu setningu: „Enda er hann lagstur uppíloft undir bílinn og farinn að mixa.“

Þessu er nákvæmlega eins farið með hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hann er byrjaður að mixa, skammta í potta sína og blanda herlegheitunum saman svo úr verður sangur grautur, sem greinilegt er að mjög fáir hafa lyst á, ekki einu sinni þeir sem eiga að bera fram málið, stjórnarliðarnir sem bera hina pólitísku ábyrgð á ríkisstjórninni og þar með þessu frumvarpi. Það þarf engan að undra þó að þeir sem eiga að bera málið á sínum pólitísku herðum inn í þingið séu strax farnir að lýjast og erum við þó varla farin að hefja þessa umræðu. Við höfum öll á þessu fullan skilning; mixið frá hæstv. ráðherra hefur fengið mjög vondar viðtökur.

Þetta mál á sér mikla forsögu. 7. september sl., fyrir tæpum níu mánuðum, skilaði endurskoðunarnefnd, sem var skipuð fulltrúum allra þingflokka á Alþingi og fulltrúum hagsmunasamtaka, frá sér niðurstöðu sem í raun lagði grunninn að ágætu frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða sem ég fullyrði að hægt hefði verið að ná mikilli pólitískri samstöðu um. Það var kosið að hafa á þessu annað vinnulag. Við þekkjum það að þá tóku við mikil pólitísk hrossakaup ríkisstjórnarflokkanna, innan þeirra og milli þeirra. Það er auðvitað ástæðan fyrir því að þau frumvörp sem við erum með fyrir framan okkur komu fyrst inn í þingið löngu eftir að lögmætur tímafrestur var útrunninn, löngu eftir að gert hafði verið ráð fyrir því að frumvörpin litu hér dagsins ljós.

Það tók stjórnarflokkana tæpa níu mánuði að koma sér niður á þau frumvörp sem hér liggja fyrir. Það vekur athygli að annað virðist vera kennt við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en hið síðara, það stærra, er í daglegu tali kennt við Samfylkinguna. Þannig er nú verkaskiptingin. Tæpa níu mánuði tók þetta sem sagt, nærri því fullan meðgöngutíma. Það er alveg sama hvar borið er niður, alls staðar eru viðtökurnar hinar sömu. Við sáum í fjölmiðlum að hagsmunasamtök og fulltrúar þeirra luku upp einum rómi um það að þessi frumvörp væru allsendis ófullnægjandi. Ég læt mér duga að vitna í ályktun Farmanna- og fiskimannasambands Íslands sem mótmælir harðlega, með leyfi virðulegs forseta, „framkomnum frumvörpum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem geti ekki leitt til annars en verri afkomu þeirra sem hafi fiskveiðar að aðalstarfi. Það virðist vera markmið sitjandi stjórnvalda að rýra kjör atvinnusjómanna og færa það sem af þeim er tekið til tómstundafiskimanna. Efni frumvarpanna er óravegu frá því samkomulagi sem varð niðurstaða svokallaðrar sáttanefndar sl. sumar.“

Síðan bætist við umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Hún er algjörlega dæmalaus og ótrúleg, og hefði við allar eðlilegar aðstæður átt að leiða til þess að ríkisstjórnin hefði endurskoðað sín mál, sérstaklega í ljósi þess að það er fjármálaráðherra, oddviti annars ríkisstjórnarflokkanna, sem er hinn pólitíski yfirmaður þessarar skrifstofu. Hann kýs hins vegar að bera ábyrgð á því að hér er lagt fram frumvarp sem hans eigin skrifstofa dregur í efa að standist stjórnarskrána. Við getum haft ýmsar skoðanir á þessu áliti fjárlagaskrifstofunnar en þetta er í öllu falli mjög eftirtektarvert. Það vekur líka athygli að í þessu áliti fjárlagaskrifstofunnar er farið mjög mörgum orðum um það fyrirkomulag á dreifingu veiðigjaldsins sem hérna er lagt af stað með. Mig rekur ekki minni til þess á mínum langa þingferli að hafa nokkurn tímann séð umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um mál af þessu taginu sem byggt er upp með þeim hætti sem þar er gert. Það sýnir alvöru málsins sem og það að jafnvel í hinum helgustu véum ríkisstjórnarinnar eru miklar efasemdir um þetta frumvarp.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra hefur sagt, þetta frumvarp hér, minna frumvarpið, fyrra frumvarpið, snýst um afmarkaða hluti. Er það ekki lýsandi um allt málið að það eru í raun og veru einungis bráðabirgðaákvæðin í þessu frumvarpi sem eiga að taka gildi, a.m.k. að einhverju marki, á þessu fiskveiðiári og síðan því næsta? Hinu er fremur vísað inn í framtíðina.

Ég ætla að leyfa mér að fara yfir nokkrar þeirra efnisgreina sem þetta frumvarp gengur út á.

Ég vakti athygli á því fyrr í dag hvernig málið er byggt upp. Hér fetar hæstv. ráðherra nákvæmlega sömu slóð og hann hefur fetað með öllum þeim frumvörpum sem hann hefur flutt um sjávarútvegsmál frá því að hann tók við á árinu 2009. Þessi frumvörp hafa öll einkennst af því sama, að opna fyrir miklar heimildir til hæstv. ráðherra um að fara nánast með hlutina eins og hann vill, ráðskast með stjórn fiskveiða eins og hann vill. Taldi ég ekki rúmlega 30 tilvik þar sem hæstv. ráðherra kemur við sögu í þessum frumvörpum sem telur þó ekki nema sjö efnisgreinar? Ég hygg að þetta sé Íslandsmet, kannski heimsmet, eins og ég nefndi.

Tökum dæmi. Hæstv. ráðherra opnar í 1. gr. á heimild á nýjan strandveiðiflokk sem hann býr til fyrir báta undir þremur tonnum. Í þessu frumvarpi er hins vegar ekkert tekið á stóru álitamálunum sem hafa komið upp í strandveiðiumræðunni, eins og til dæmis þeim að hæstv. ráðherra hefur vísvitandi skipulagt veiðarnar þannig að hann færi aflaheimildir frá tilteknum veiðisvæðum inn á önnur. Það fyrirkomulag er nefnilega í gildi sem hæstv. ráðherra hefur skrifað upp á og haft allan atbeina að, að á einu veiðisvæði fengu menn að veiða í þessum mánuði fimm daga, á öðru tíu, en á tveimur svæðum kannski 20–22 daga. Kallar hæstv. ráðherra þetta réttlæti? Það er ekki með einu orði vikið að þessu máli í þessu frumvarpi. Hæstv. ráðherra kærir sig greinilega kollóttan um það þótt hann beiti íbúa á einstökum veiðisvæðum svona miklu óréttlæti, fyrir nú utan að með þessum hætti hefur hann verulegar tekjur af sveitarfélögum sem þarna er um að ræða sem eiga að fá gjald af strandveiðunum á grundvelli landaðs afla.

Síðan er í 3. gr. gert ráð fyrir því að sveitarfélögin í landinu fái lítt skilgreinda heimild til ráðstöfunar á kvóta. Ég ætla ekki að fara ítarlega í þetta mál en þó vil ég vekja athygli á nokkrum hlutum.

Greinin er, eins og allar aðrar í þessu frumvarpi, ákaflega opin fyrir hæstv. ráðherra til að ráðskast með. Þessi grein tekur á byggðakvótanum. Byggðakvótinn hefur verið byggður upp til að tryggja sem mesta fiskvinnslu í litlum byggðarlögum sem hafa orðið illa úti í kvótalögunum. Það er verið að reyna að byggja upp hvata til að efla fiskvinnslu á þessum stöðum. Þar er gert ráð fyrir því að þeir sem fá byggðakvóta verði síðan að útvega á móti tvöfaldar heimildir. Það er gert ráð fyrir að það haldi sér í hluta af frumvarpinu, en í hinum hlutanum sem á að koma til sveitarfélaganna þar sem gert er ráð fyrir að sveitarfélögin hafi meira sjálfdæmi um ráðstöfun aflans get ég ekki séð að gert sé ráð fyrir að þessi tvöfalda löndunarskylda til fiskvinnslu sé yfir höfuð við lýði.

Það er alveg óljóst hvort gert sé ráð fyrir því í þessum hluta að menn landi tvöföldu því magni sem þeir fá úthlutað. Því ákvæði var þó ætlað að styrkja fiskvinnsluna. Nú þarf hæstv. ráðherra að svara því við þessa umræðu hvort hann sé að opna á þær heimildir, að þetta sé bara byggðakvóti til útgerða, en eigi ekki með beinum hætti að gagnast fiskvinnslunni.

Síðan er eitt í viðbót, hinn svokallaði VS-afli sem stundum er kallaður Hafró-afli. Þar er gert ráð fyrir því að menn hafi heimild til að landa 5% umfram úthlutaðar aflaheimildir sínar. Það er út af fyrir sig skynsamleg ákvörðun. Hér er hins vegar opnað á það að hæstv. ráðherra geti, algjörlega án þess að gerð sé tilraun til að skilgreina það í frumvarpinu, tímabilaskipt þessu.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Ef þetta verður samþykkt, hvernig hyggst hann standa að þessari tímabilaskiptingu?

Í 5. gr. er talað um að hækka veiðigjaldið um 70%. Jafnframt því er opnaður sá möguleiki að innheimt sé lægra gjald af útgerðarflokkum sem hafi minni framlegð. Þetta er út af fyrir sig sjónarmið sem við skulum bara ræða en þá verðum við að fá miklu nánari skýringar frá hæstv. ráðherra um hvað felist í þessari heimild. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra beita þessu? Hvernig verður þetta gert? Klassískt dæmi gæti verið rækjan, en það eru auðvitað líka aðrar tegundir.

Hæstv. ráðherra hefur verið að segja okkur það að undanförnu, m.a. í ræðu hér áðan, að afkoman og hagkvæmnin í því að sækja fiskinn á minni bátum sé meiri en á öðrum skipum. Má þá búast við því af hálfu hæstv. ráðherra að það verði innheimt hærra veiðigjald af minni bátum, að smábátarnir fái á sig öðruvísi veiðigjald en stærri skipin sem hæstv. ráðherra segir að sé óhagkvæmari? Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa farið ofan í þetta. Það getur ekki verið að hæstv. ráðherra fái svona galopna heimild í þessum efnum án þess að hann hafi gert sér grein fyrir því hvað hér er um að ræða.

Það er líka ljóst að það sem hér er verið að gera, hækkun veiðigjaldsins um 70%, þýðir í raun og veru að verið er að taka — hvað á ég að segja? — skatttekjur sem eiga nánast allar uppruna sinn úti á landi og ráðstafa þeim í gegnum ríkissjóð. Hæstv. ráðherra reynir að vísu að opna á að þetta verði síðan endurgreitt til sveitarfélaganna. Það er fullkomin óvissa um hvort þessi aðferð hæstv. ráðherra standist stjórnarskrá.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefði ekki verið dálítill mannsbragur á því að hæstv. ráðherra hefði að minnsta kosti séð til þess að aukningin upp á 2 milljarða kr. sem nú á að leggja á útgerðir sem eru nánast að 90% leyti úti á landsbyggðinni kæmi til landsbyggðarinnar? Þessi viðbótarskattlagning upp á 2.000 millj. kr. sem leggst á atvinnustarfsemi á landsbyggðinni ætti að koma, þó að það sé ekki gert með þeim klúðurslega hætti sem hæstv. ráðherra leggur hér til, til landsbyggðarinnar að öllu leyti.

Ég vek í þessu sambandi líka athygli á einu atriði. Það er mjög mikið talað um að það sé eðlilegt að innheimta sérstakt aðgangsgjald fyrir að fá að nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og vísað þá meðal annars til fiskveiðiauðlindarinnar. En er það ekki svo að hér eru fleiri auðlindir undir? Hefur ekki hæstv. ríkisstjórn talað um að samræma þessa skattlagningu þannig að hún nái ekki bara til sjávarútvegsins? Ég hef látið reikna út fyrir mig sérstaklega hvernig það mundi virka ef beitt yrði nákvæmlega sömu aðferð við útreikning auðlindagjalds og verið er að beita í sambandi við þetta veiðigjald ef það yrði yfirfært yfir á helstu orkufyrirtækin í landinu. Ég lét skoða fyrir mig sérstaklega tvö þau stærstu.

Ef þau fyrirtæki, Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun, eiga að borga það sama og sjávarútvegurinn greiðir miðað við 9,5% af EBITDA og upphæðin verður 16,2% í framleiðni í haust, ef þetta frumvarp verður samþykkt, 19% ef hið stærra frumvarp verður samþykkt, mundi það þýða að Landsvirkjun greiddi í sambærilegt gjald 6,6 milljarða kr. og Orkuveita Reykjavíkur nærri 1,2 milljarða kr. Af hverju skyldi þessi aðferð ekki vera yfirfærð á orkufyrirtækin? Svarið er augljóst: Hæstv. ríkisstjórn leggur auðvitað ekki í að leggja slíkt gjald á orkufyrirtækin vegna þess að hún gerir sér grein fyrir því að einhvern veginn þarf að hrinda þessum kostnaði af herðum sér. Það mundi að sjálfsögðu lenda á herðum neytendanna. Hins vegar hljómar vel í hinni pólitísku umræðu, sem við sáum náttúrlega í dæmalausri ræðu hæstv. forsætisráðherra um helgina, að geta sagt að nú sé verið að skattleggja hina vondu útgerð og hina vondu útgerðarmenn án þess að menn ímyndi sér að það muni með einhverjum hætti hafa áhrif á afkomu útgerðarinnar eða möguleikann á því að standa undir þessu með einhverjum öðrum hætti.

Það er auðvitað mjög margt sem væri fróðlegt að ræða hérna. Ég ætla aðeins að nefna eitt í lokin. Hér er opnað á möguleika á svokallaðan meðafla í löngu og keilu. Það er út af fyrir sig áhugaverð nálgun, en þá vil ég vekja athygli á einu sem hæstv. ráðherra sem kemur úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hlýtur að velta fyrir sér. Staðan er núna sú ef þetta kemur til viðbótar að það stefnir í að afli á löngu verði um 75–80% umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og í keilunni 50–55%. Má þá reikna með því, hæstv. sjávarútvegsráðherra, að til lengri tíma litið verði skertar aflaheimildir hjá (Forseti hringir.) aflahlutdeildarskipunum í löngu og keilu? Eða hvernig telur hæstv. ráðherra að þetta gæti gengið upp til frambúðar?