Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 15:40:05 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[15:40]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að spyrja hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, og ég þakka honum reyndar fyrir fína ræðu og efnislega, aðeins í sambandi við þetta veiðigjald og úthlutun þess til landshlutanna eða eins og kemur fram í frumvarpinu að því er virðist beint til einstakra sveitarfélaga. Nú er það svo að í þjóðlendulögunum sem hér voru sett segir að þær tekjur sem verða til í viðkomandi þjóðlendu skuli renna til hennar til uppbyggingar og reksturs hennar. Ef menn hugsuðu landshlutana og nýtingu þeirra á auðlindinni sem er úti fyrir hverjum landshluta með sambærilegum hætti, ætti þá ekki það sama við? Mig langaði að heyra svona hugmyndafræðilegar vangaveltur þingmannsins á því hvort þetta gæti verið sambærilegt en ekki endilega hvort útfærsla hæstv. ráðherra og ráðuneytis hans sé rétt.