Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 16:05:28 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:05]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður velti fyrir sér hvernig það væri ef það kæmi aukning í þorskveiðiheimildir á þessu ári. Það er alveg hárrétt, það verður að gjalda varhuga við því. Það liggja fyrir upplýsingar um að þorskstofninn sé að stækka og vaxa. Það lá fyrir þegar aflamark var ákveðið fyrir yfirstandandi ár og við erum komin mjög langt í árið. 1. september byrjar nýtt fiskveiðiár. Ef lagaheimildir væru til til að ráðstafa þessum aflaheimildum með öðrum hætti en beint á aflamarkshafa, t.d. í strandveiðarnar eins og hér hefur verið nefnt, finnst mér alveg grunnur til að skoða það. Ef það þætti ganga of mikið á þorskstofninn þarf að taka tillit til þess við ákvörðun fyrir næsta fiskveiðiár. Við erum komin mjög nálægt þessum mörkum, við höfum vitneskju um að þorskstofninn sé að vaxa og það muni verða svigrúm til aukinna veiðiheimilda á næsta fiskveiðiári. Það var reyndar þegar á þessu ári en vegna þess að tekið er meðaltal tveggja ára var ákvörðunin sem tekin var fyrir þetta ár látin vera sú sem hún er. (Forseti hringir.) En ég tel að þarna séu möguleikar sem sé alveg vert að skoða, frú forseti.