Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 16:11:55 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:11]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það er auðvitað augljóst að þeir sjö dagar sem eftir eru af þessu þingi munu ekki nægja til að vinna þetta með vönduðum hætti. Eins og við höfum svo sem orðið vitni að er þetta frumvarp afar umdeilt. Við framsóknarmenn vorum á þingflokksfundi fyrr í dag með öllum hagsmunaaðilum í sjávarútvegi, þar á meðal öllum sjómannasamtökunum, stéttarfélögum sjómanna, og það er óvanalegt að allur þessi hópur sé sammála. Hann er þó sammála um að þetta sé það slæmt að ekki sé nein ástæða til að klára málið á þessum sjö dögum.

Varðandi það hvort þetta hæfi virðingu Alþingis og hvort þetta sé í áttina að því sem við fjölluðum um í þingmannanefndinni og samþykktum í þingsályktun 63:0 er auðvitað augljóst að svo er ekki. Hér tekur framkvæmdarvaldið sér umtalsvert vald á kostnað löggjafarvaldsins.