Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 16:17:16 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:17]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að ég hafi verið það hófstilltur að hv. þingmaður hafi ekki heyrt það sem ég sagði eða þá að ég verði að fara yfir það. En það er alveg klárt að á flokksþingi framsóknarmanna fórum við yfir fjárhagsmálin og eyddum til þess býsna löngum tíma. Sá sem hér stendur leiddi þá vinnu í heilt ár. Ástæðan fyrir að við töldum það nauðsynlegt var það meginmarkmið að finna leið sem mundi tryggja rekstrargrundvöll greinarinnar og ná sátt meðal þjóðarinnar um atvinnugreinina. Það er gríðarlega mikilvægt að mikilvægasta atvinnugrein landsins njóti slíks trausts hjá almenningi að hún fái að starfa í friði. Það er líka gríðarlega mikilvægt að hún hafi þannig rekstrargrundvöll að hún skili sem mestum arði til þeirra sem eru í greininni, en líka til þjóðarinnar. Yfir þetta fórum við og eins og hv. þingmaður kom inn á skiluðum við býsna góðum tillögum sem munu, eins og staðan er núna á nefndasviði, væntanlega koma hingað inn í formi þingsályktunartillögu. Ég býst ekki við (Forseti hringir.) að það náist að koma tillögunum inn í umræðuna á næstu dögum en ég vona að það takist vegna þess að það þarf að leiðrétta það sem hér stendur.