Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 16:40:41 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir það sem hv. þingmaður ýjar að, að það er ýmislegt gott við kvótakerfið. Það sem er gott við það lýtur að því að halda utan um fiskstofnana og fiskistjórnina sjálfa. Það varð líka til þess á sínum tíma að draga úr offjárfestingu í greininni sjálfri. En um leið og við viðurkennum þessa góðu kosti kerfisins verðum við líka að horfa á gallana og einn af göllunum var sá að það hefur orðið til þess að mönnum verður býsna auðvelt að skuldsetja þessa grundvallaratvinnugrein okkar alveg í drep, ekki til fjárfestinga í greininni sjálfri heldur til að fara með út úr greininni, jafnvel út úr hagkerfinu eða í fjárfestingar í alls óskyldri starfsemi, til að mynda bankabréfum sem bara hafa tapast.