Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 16:46:40 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans greinargóða svar. Þetta var þriggja orða svar sem ég met mikils af hálfu Samfylkingarinnar. Það er gott þegar slík svör berast, þegar þau berast yfirleitt.

Mig langar að vitna í svar sem undirritaður fékk við spurningu um afskriftir hjá fyrirtækjum. Í því kemur fram að á árunum 2009–2010 hafi rúmir 25 milljarðar verið afskrifaðir í byggingarstarfsemi, 29 milljarðar í verslunarstarfsemi og 34 milljarðar í fasteignafélögum svo dæmi séu tekin. Á meðan voru 10 milljarðar afskrifaðir hjá sjávarútvegsfyrirtækjum. Ég mundi lesa þetta þannig að sjávarútvegsfyrirtækin væru nokkuð vel rekin miðað við þetta. Var Alþingi einhvern tímann spurt eða íslenska þjóðin hvort hún vildi taka á sig þær byrðar sem fylgja því að verslun og þjónusta í Reykjavík hafi farið á hausinn eða fjármálastarfsemin í Reykjavík, fjármálastarfsemi sem ekki vildi lána landsbyggðinni? Nú vill hv. þingmaður ekki að hluti af veiðigjaldinu renni til byggðarlaganna.

Mig langar einnig að spyrja hv. þingmann í framhaldinu hvort honum finnist ekki réttlætanlegt að orkuverð verði jafnað. (Forseti hringir.) Nú er það þannig að sérstaklega Reykvíkingar hafa mikinn hag af því að orkuauðlindin í jörðu sé ódýr, af hverju ekki allir landsmenn?