Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 16:54:36 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé einfaldlega málefni fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að fara yfir hvað af þessum þáttum er nauðsynlegt að festa í lög áður en þingið fer í sumarleyfi. Ég held að það sé sannarlega alls ekki allt. Ég held að það væri þó ákjósanlegt með veiðigjaldið þó að það sé ekki algerlega nauðsynlegt laganna vegna, einfaldlega til að menn sem stunda þessa atvinnustarfsemi hafi þann fyrirsjáanleika að vita hvaða gjöld verða á hana lögð. Jú, ég deili áhyggjum með hv. þingmanni af smærri bátum vegna þess að við upplifðum fyrir nokkru fyrsta árið sem enginn fórst á sjó. Það er gríðarlegur árangur í slysavörnum hjá þjóð sem missti stóra hópa manna í sjóslysum á árum áður. Við verðum auðvitað að standa þá vakt vel og fara gaumgæfilega yfir þessa þætti í nefndinni.