Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 16:55:44 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[16:55]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom í lok ræðu sinnar inn á skiptinguna á auðlindagjaldinu. Ég verð að segja fyrir mína parta að þar sem við erum að tala um að ná þjóðarsátt um atvinnugreinina er ég dálítið hugsi yfir því að því verði deilt með mismunandi hætti til sveitarfélaga. Mér fannst líka koma fram í máli hv. þingmanns að það yrði skoðað í sumar og tók undir þau orð hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar að menn mundu skoða það auðlindagjald sem yrði þá sannarlega sett á allar auðlindir.

Getur hv. þingmaður þá tekið undir það sjónarmið mitt að þessi umræða eigi hugsanlega eftir að þróast miklu meira þannig að við getum í raun náð einhverri þjóðarsátt um þá auðlind eða nýtinguna á öllum auðlindum þjóðarinnar? Ég sé ekki fyrir mér að hægt sé að ná þjóðarsátt um einhverja auðlind ef síðan á að skipta henni með einhverjum hætti þar sem íbúarnir fá mismunandi gjald af auðlindinni sjálfri. Þá kemur fyrst upp í huga mér (Forseti hringir.) hvað muni gerast til að mynda hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Það er hlutur sem við þurfum að ræða miklu frekar.