Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 17:17:17 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:17]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var sérkennileg ræða og afhjúpar í raun skilningsleysi hv. þingmanns á málefninu, algert skilningsleysi. Það er auðvitað mjög bagalegt þegar formaður sjávarútvegsnefndar er uppvís að slíku skilningsleysi á grundvallaratvinnugrein okkar. (Gripið fram í.) Það er ekkert verið að blanda saman fyrra málinu og hinu. Núna er verið að færa 9 þúsund tonn frá þeim sem höfðu þau áður yfir til strandveiðanna. Verið er að skilja sjómenn og litlar og meðalstórar útgerðir, lítil fjölskyldufyrirtæki sem hv. þingmaður þekkir vel á Vestfjörðum, eftir með skuldirnar. Verið er að taka af þeim aflaheimildirnar sem þau keyptu og gerðu með því ekkert annað en að spila eftir settum reglum, reglum sem ríkisstjórn setti á sínum tíma og hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon áttu þátt í. Þetta fólk hefur ekkert gert af sér annað. Nú er þetta tekið af því og það skilið eftir með skuldirnar einar. Er það réttlætanlegt?