Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 17:22:17 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil hvetja hv. þingmann til að vera ekki með neina hæversku í sambandi við þetta. Ef hv. þingmaður er tilbúin til að endurskoða skiptinguna á milli strandveiðisvæðanna finnst mér að hv. þingmaður eigi að gera okkur grein fyrir því hér og nú. Það eru fleiri en við sem sitjum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sem hafa áhuga á því, m.a. þeir sem hlýða á þessa umræðu og hafa mikilla hagsmuna að gæta. Ég vil biðja hv. þingmann um að beita sér fyrir þessu máli tafarlaust við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það líður á strandveiðitímabilið og mjög mikilvægt er að þessum breytingum verði hrundið í framkvæmd eins og skot.

Þá vil ég jafnframt spyrja hv. þingmann um það ákvæði í frumvarpinu að enginn megi í raun og veru gera út fleiri báta en einn. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvað er átt við með hugtakinu eigandi í þessu samhengi? Maður sem á t.d. 1% eða 3% í bát, hefur hann ekki heimild til að gerðir séu út tveir eða þrír bátar sem hann á einhvern minni háttar eignarhlut í? Um hvað er verið að tala? Það er ekki skýrt í frumvarpinu.