Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 17:27:02 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef allir eiga sama rétt þá átta ég mig ekki á því hvernig hv. þingmaður getur réttlætt það að færa vinnu frá fiskvinnslufólki einhvers staðar á Norðurlandi til fiskvinnslufólks í sjávarplássi sunnan lands eða einhvers staðar annars staðar. Ef rétturinn er sá sami, hvernig er hægt að réttlæta það að taka atvinnuréttinn frá einum og færa hann öðrum?

Það er nú einu sinni þannig, frú forseti, að við erum að tala um takmarkaða auðlind. Ef útgerðarmaður A, hvort sem hann rekur lítið eða stórt fyrirtæki, á 100 fiska og maður tekur af honum 50 fiska og færir einhverjum öðrum, þá minnkar væntanlega hjá viðkomandi aðila um 50 fiska, hvort sem hann er með lítið frystihús, stórt frystihús eða er einn að róa eða 20 karlar róa með honum.

Ég er ekkert sérstaklega mikill hagfræðingur en þetta skil ég þó. Ef þú tekur fisk af einum og færir öðrum minnkar hluturinn hjá hinum. Mér finnst mjög sérkennilegt að heyra úr þessum ranni, heyra það hjá hv. þingmanni að þetta geti verið eðlilegt.