Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 17:48:44 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér staðfestir hæstv. ráðherra að hann sjái ekki ástæðu til þess að breyta svæðisskipulaginu, eða hvernig það yrði gert, með þeim ójöfnuði sem þar er. Það veldur mér miklum áhyggjum. Ég fagna því sérstaklega að hér séu staddir formaður og varaformaður sjávarútvegsnefndar, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, vegna þess að þær hafa báðar tekið undir þá gagnrýni og kom mjög skýrt fram að þetta væri eitt af því sem menn þyrftu að skoða mjög vandlega til að þessi ójöfnuður ætti sér ekki stað. Það hlýtur að vekja ugg hjá hv. þingmönnum að heyra að hæstv. ráðherra sjái enga ástæðu til að breyta þessu en samkvæmt lögunum er alræðisvaldið hjá hæstv. ráðherra. Þess vegna vara ég þá við og hvet hv. þingmann og formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að taka það til sérstakrar skoðunar hvort ekki verði að gera þetta með þeim hætti að þingið hafi meiri aðkomu að því vegna þess að áherslur hv. formanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og hæstv. ráðherra fara greinilega ekki saman. En valdið er hjá hæstv. ráðherra.