Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 17:57:06 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[17:57]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég lít þannig á að við séum nokkuð sammála um svarið við þeirri spurningu hvort lagfæra eigi þau ákvæði sem varða tegundatilfærsluna, að það þurfi að gera, það séu útfærsluatriði. En eftir standa hugmyndir sem eru í frumvarpinu t.d. varðandi VS-aflann, pottana og auðlindagjaldið sem var nokkuð góð samstaða um í endurskoðunarhópnum að ætti að fara.

Hvort það er hugmyndafræðin sjálf sem hv. þingmaður er andsnúin eða hvort það er útfærslan skiptir dálítið miklu máli því að ef við getum fallist á hugmyndafræðina er kominn umræðugrundvöllur og þá getum við farið að takast á við um útfærslur og slíkt.

Það hefur vissulega komið fram hjá sumum úr forustusveit þess flokks sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson situr fyrir á þingi, að sumir vilja ekki gera breytingar. Ég vitna þar til viðtals við hv. þm. Ólöfu Nordal, varaformann Sjálfstæðisflokksins, sem sagði í viðtali við Viðskiptablaðið 23. apríl síðastliðinn að hún sæi enga ástæðu til að gera breytingar á stjórnkerfi fiskveiða. Ég lít þannig á að við séum þó sammála um það, ég og hv. þm. (Forseti hringir.) Ásbjörn Óttarsson, að það þurfi að gera, í það minnsta hvað varðar þau atriði sem ég hef nefnt og eru öll tiltekin í því frumvarpi sem við ræðum. Útfærslan er síðan annað.