Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 18:49:57 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:49]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég bíð svars frá virðulegum forseta um það hverjir séu hér til að fylgjast með þessum umræðum. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hitti naglann á höfuðið þegar kom að umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Hvernig stendur á því að hæstv. fjármálaráðherra er ekki viðstaddur til að hlýða á þessa umræðu? Ætlar hann ekkert að taka til máls í þessu máli? (Gripið fram í: Nei.) Ætlar hæstv. fjármálaráðherra ekki að setja sig á mælendaskrá? Og hér hefur hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra komið og sagt að þessi umsögn fjárlagaskrifstofunnar sé eitthvað sem embættismenn í ráðuneytinu hafi kokkað upp, bara einir og sjálfir, og komi hæstv. ráðherra ekkert við. Hvernig geta menn haldið slíku fram?

Það er ekki hægt að bjóða upp á það, þegar verið er að tala um grundvallarhagsmuni þjóðarinnar, og hér er ríkisstjórn sem telur svo brýnt að breyta þar öllu að það þurfi að gera strax, að hún sjái þá ekki sóma sinn í að vera hér og taka þátt í umræðum við virðulega alþingismenn. Eftir hverju er verið að kalla? Var ekki verið að kalla eftir því að menn ræddu þetta mál í þaula? Við hvern á að tala? Eigum við að tala hér hvert við annað, stjórnarandstæðingar? Hvers konar vitleysisgangur er þetta?

Það verður að fá úr því skorið hvaða virðulegir ráðherrar eru hér til að hlusta og taka þátt í þessum umræðum. Ég hvet síðan hv. þingmenn stjórnarliðsins, sem eru svona heillaðir af þessum frumvörpum, að setja sig á mælendaskrá og taka þátt í umræðunum.