Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 18:51:11 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[18:51]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að það er eðlileg ósk af okkar hálfu að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra séu hér viðstaddir. Það er að sönnu þannig að þetta er ekki á þeirra málasviði eiginlega, en hæstv. forsætisráðherra hefur brugðið sér í einhvers konar hlutverk yfirsjávarútvegsráðherra og hefur verið að senda okkur tóninn um það hvernig sjávarútvegsmálin eigi að líta út. Það gerir hæstv. forsætisráðherra í skjóli flokksklúbba sinna þar sem hún heldur ræðu sína til að tryggja að hún þurfi ekki að mæta einhverjum andsvörum. En hæstv. forsætisráðherra ætti auðvitað, í ljósi þess að hún hefur hingað til ekki sýnt þann kjark — en er hins vegar að koma fram sem kjarklaus í þessu máli — að koma ekki til viðræðna við okkur um þessi mál.

Hæstv. fjármálaráðherra er líka hinn pólitíski ábyrgðarmaður álits fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og getur ekkert skotið sér undan því. Það er ekki þannig að fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins sé einhver fílabeinsturn sem enginn getur snert. Hæstv. fjármálaráðherra er hinn pólitíski ábyrgðarmaður hennar og það er eðlilegt að þessir hæstv. ráðherrar séu viðstaddir þessa umræðu af þessum ástæðum.