Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 19:17:48 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[19:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það var upplýst um daginn — ef eitthvað er að marka Sjávarklasann, sem ég nefndi hér áðan, en hann verður kynntur betur í haust — að um 300 milljarðar séu í umsýslu í kringum sjávarútveginn. Það þarf því enginn að velkjast í vafa um hversu mikilvæg sú atvinnugrein er.

Í ljósi margnefndra frumvarpa — annað komið á dagskrá, hitt í umræðu — hljótum við að spyrja hvernig í ósköpunum menn eigi að geta gert, hvort sem um er að ræða litlar útgerðir eða stórar, áætlanir til framtíðar á þeim grunni sem verið er að leggja. Eru einhverjar líkur á því, af því að fólki verður tíðrætt um nýliðun, að einhverjir nýliðar hætti sér út í atvinnugrein á þeim forsendum sem hér er verið að boða?